Viðbragðsáætlun
Stefna og áætlun Krabbameinsfélags Íslands um viðbrögð gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri óviðunandi hegðun.
Stefna
Í öllu starfi Krabbameinsfélags Íslands eiga starfsmenn og stjórnendur að sýna kurteisi og virðingu í samskiptum og hafa samskiptasáttmála félagsins að leiðarljósi.
Einelti, kynferðisleg eða kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur óviðunandi hegðun verður ekki liðin hjá félaginu og er óheimil, bæði hjá stjórnendum og starfsmönnum.
Krabbameinsfélagið skal gera sitt besta í að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra óviðunandi hegðun í starfi félagsins með fyrirbyggjandi hætti og með virkri, aðgengilegri viðbragðsáætlun.
Skilgreiningar
Einelti
Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Kynferðisleg áreitni
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Kynbundin áreitni
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Ofbeldi
Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Áhættumat
Er hluti af vinnuverndarstarfi þar sem m.a. eru greindir áhættuþættir eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum og áhættuþættir í samskiptum starfsmanna við aðila utan félagsins, í tengslum við starfið.
Viðbragðsáætlun
Eftirfarandi viðbragðsáætlun skal virkja í þeim tilvikum þegar grunur er um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðileg hegðun eigi sér stað eða hafi átt sér stað hjá Krabbameinsfélaginu. Áætlunina skal virkja m.a:
- verði stjórnendur varir við hegðun eða ágreining í samskiptum starfsmanna sem vekur grunsemdir um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðileg hegðun sé til staðar.
- berist stjórnendum kvörtun frá starfsmanni um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun á vinnustað
- berist stjórnendum ábending um að starfsmaður hafi orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi eða annarri ótilhlýðilegri hegðun á vinnustaðnum.
Viðbragðsáætlunina skal virkja hver sem gerandinn er, þ.e. starfsmaður eða aðili utan félagsins. Hvort atvikið á sér stað innan eða utan vinnustaðar skiptir ekki máli ef starfsmenn eiga hlut að máli.
Samskiptavandi á vinnustað
Ef upp koma ágreiningsmál, samskiptaerfiðleikar eða hagsmunaárekstrar er mikilvægt að stjórnendur bregðist við með viðeigandi hætti án tafar til að koma í veg fyrir að þau þróist á verri veg.
Viðbrögð stjórnenda
Verði stjórnandi var við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra óviðeigandi hegðun eða hefur rökstuddan grun um að slík hegðun eigi sér stað hjá félaginu ber honum að bregðast við eins fljótt og unnt er til að koma í veg fyrir að hegðunin endurtaki sig. Hann skal upplýsa framkvæmdastjóra sem virkjar þessa viðbragðsáætlun. Ef grunur er um að framkvæmdastjóri sé gerandi skal beina málinu til formanns stjórnar félagsins.
Tilkynning starfsmanna
Verði starfsmenn varir við einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða aðra ótilhlýðilega hegðun eða hafa rökstuddan grun um að slíkt eigi sér stað hjá félaginu skulu þeir bregðast við með því að koma á framfæri kvörtun eða ábendingu til næsta yfirmanns eða framkvæmdastjóra félagsins. Starfsmaður skal vera tilbúinn til að skýra mál sitt. Þeir aðilar sem fá kvörtun eða ábendingu skulu þegar hafa samband við framkvæmdastjóra sem virkjar viðbragðsáætlunina. Ef grunur er um að framkvæmdastjóri sé gerandi skal beina máli til formanns stjórnar félagsins.
Fyrstu viðbrögð
Framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins ber ábyrgð á rannsókn mála og skal þegar í stað virkja þessa viðbragðsáætlun. Taka skal allar tilkynningar alvarlega og sýna nærgætni í aðgerðum gagnvart aðilum máls. Meðal annars skal framkvæmdastjóri í samráði við næsta yfirmann viðkomandi eins fljótt og unnt er, meta þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og veita hann. Bregðast skal við hið fyrsta í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að hegðun endurtaki sig, með það fyrir augum að koma í veg fyrir meiri skaða.
Kynning á stefnu og viðbragsáætlun Krabbameinsfélags Íslands
Kynna skal þessa stefnu og viðbragðsáætlun fyrir starfsmönnum á starfsmannafundi, að minnsta kosti einu sinni á ári. Hún skal kynnt nýjum starfsmönnum við upphaf starfs og er hluti af leiðbeiningum til starfsmanna á Teams-svæði starfsmanna. Hún er einnig aðgengileg á heimasíðu félagsins. Stefnuna og áætlunina skal endurskoða eftir þörfum og breytingar kynna fyrir starfmönnum.
Málsmeðferð
Framkvæmdastjóri skal sjá til þess að í hverju tilviki sé gerð athugun á málsatvikum með það fyrir augum að meta hvers eðlis umrædd kvörtun eða ábending er ásamt því að meta hvort ástæða sé til að leita til utanaðkomandi aðila til aðstoðar svo leiða megi mál til lykta og tryggja hlutlausa málsmeðferð. Óskir málsaðila um aðkomu utanaðkomandi aðila að málinu skal virða eftir megni. Við málsmeðferð máls skal sýna varfærni og nærgætni í aðgerðum með virðingu fyrir hlutaðeigandi starfsmönnum, meðal annars með því að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama. Áður en málsmeðferð hefst skal framkvæmdastjóri upplýsa aðila máls að mál þeirra muni verða tekið til meðferðar.
Upplýsinga aflað
Framkvæmdastjóri skal tryggja að við matið sé hlutaðeigandi starfsmönnum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og ræða við einn aðila máls í einu.
Við athugun á málsatvikum skal ræða við ætlaðan þolanda, ætlaðan geranda, vitni eða aðra þá sem veitt geta upplýsingar um málsatvik. Skrásetja skal allar frásagnir aðila og bera þær undir viðkomandi til samþykktar.
Við athugun verður líka leitað upplýsinga um tímasetningar og gögn, svo sem tölvuskeyti, skilaboð í síma eða tölvu og annað sem varpað getur ljósi á málið. Framkvæmdastjóri skal sjá til þess að allt sem tengist meðferð máls sé skráð og halda hlutaðeigandi starfsmönnum upplýstum meðan á meðferðinni stendur.
Ráðstafanir vegna samskipta meðan á rannsókn stendur
Meðan athugun fer fram skal framkvæmdastjóri tryggja að ætlaður þolandi og ætlaður gerandi þurfi ekki að hafa samskipti er varða starfsemi félagsins, til dæmis með breytingum á verkferlum.
Ef mál varða aðila sem ekki er starfsmaður félagsins mun framkvæmdastjóri sjá til þess að starfsmaður þurfi ekki að vera í samskiptum við aðilann.
Allar upplýsingar meðhöndlaðar sem trúnaðarmál
Allar upplýsingar sem fást um málið verða meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og öll málsgögn varðveitt á öruggum stað á ábyrgð Krabbameinsfélagsins.
Framkvæmdastjóri skal tryggja að óviðkomandi aðilum verði ekki veittar upplýsingar um málið og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama.
Aðgerðir í kjölfar niðurstöðu
Þegar mál telst nægjanlega upplýst skal framkvæmdastjóri taka ákvörðun, í samráði við aðra stjórnendur um til hvaða aðgerða verði gripið í samræmi við alvarleika máls hverju sinni.
Þegar atvik eða hegðun telst vera einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhlýðileg hegðun verður brugðist við eftir eðli máls með því að veita geranda tiltal eða áminningu, færa hann til í starfi eða segja viðkomandi upp. Þolanda og geranda verður veitt aðstoð eftir þörfum.
Haldi þolandi og gerandi báðir áfram störfum hjá félaginu skal gera breytingar
á vinnustaðnum eins og kostur er, varðandi vinnuskipulag, verkferla og svo framvegis með það fyrir augum að sátt náist til framtíðar.
Mál sem varða almenn hegningarlög skal tilkynna til lögreglu.
Tilkynna skal hlutaðeigandi starfsmönnum skriflega um málalyktir. Áður en málinu er lokið skal bera skýrsluna undir ætlaðan þolanda og ætlaðan geranda.
Upplýsingar til annarra starfsmanna
Framkvæmdastjóri skal meta hvort nauðsynlegt er að upplýsa aðra starfsmenn um lyktir mála eða afgreiðslu, með það að markmiði að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi. Gæta skal að því að persónuupplýsingar eða aðrar upplýsingar séu ekki veittar óviðkomandi aðilum.
Eftirfylgni mála
Framkvæmdastjóri getur falið næstu yfirmönnum að fylgja máli eftir í þeim tilgangi að tryggja að hegðun endurtaki sig ekki. Láti gerandi ekki af sinni hegðun, þrátt fyrir leiðsögn eða áminningu, getur það leitt til tafarlausrar brottvikningar úr starfi.
Forvarnaraðgerðir
Eftir að viðbragðsáætlun þessi hefur verið virkjuð skal í öllum tilvikum endurskoða það áhættumat sem er í gildi, burtséð frá málalyktum og grípa til viðeigandi úrbóta ef þörf krefur.
Áhættumat skal endurskoðað að lágmarki einu sinni á ári og úrbætur gerðar ef þörf krefur.
Viðbragðsáætlunin var birt 22.08. 2024 eftir samráð við stjórnendur og starfsfólk Krabbameinsfélagsins.