Beint í efni
Hvers vegna krabbameinsrannsóknir?

Hvers vegna krabba­meins­rann­sókn­ir?

Á síðustu áratugum hafa orðið miklar framfarir í greiningu og meðferð krabbameina fyrir tilstilli krabbameinsrannsókna. Verkinu er þó hvergi nærri lokið.

Nauðsynlegt er að tryggja að unnt sé að sinna fjölbreyttum rannsóknum á krabbameinum enda þarf að rannsaka betur hvernig fækka megi krabbameinstilfellum, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og bæta lífsgæði þeirra sem greinst hafa með krabbamein.

Er ekki bara hægt að rannsaka þetta úti í heimi?

Það er lykilatriði að krabbameinsrannsóknir séu stundaðar hérlendis. Fyrir utan það að nauðsynlegt er að rannsaka útbreiðslu krabbameina hérlendis sem og árangur meðferða og aðgerða á okkar sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum, þá eigum við heimsklassa vísindafólk og rannsóknarumhverfi sem synd væri að missa úr landi.

Vísindasjóðurinn gegnir lykilhlutverki við að skapa tækifæri til rannsókna á Íslandi sem við getum verið stolt af.

Fjölbreyttar rannsóknaraðferðir

Margvíslegum aðferðum er beitt við rannsóknir á krabbameinum. Hvort sem verið er að finna fjölda fólks sem greinist með tiltekin krabbamein, rannsaka langtímaáhrif þess að greinast með krabbamein, rækta stökkbreyttar krabbameinsfrumur eða skoða áhrif meðferða eða lyfja á meðferð og lífsgæði sjúklinga er markmiðið það sama: framfarir. Það er að segja, færri krabbameinstilfelli, færri dauðsföll og bætt lífsgæði.

Hér er lýsing á nokkrum helstu gerðum rannsókna:

Grunnrannsóknir

Grunnrannsóknir fara gjarnan fram á rannsóknarstofu. Meðal rannsóknaraðferða eru ræktun fruma og rannsóknir á músum og ávaxtaflugum. Í grunnrannsóknum er reynt að finna út hvers vegna krabbamein myndast, hvernig þau vaxa og breiðast út. Skilningur á þessum þáttum er nauðsynlegur til að hægt sé að þróa aðferðir til að vinna gegn myndun og framþróun krabbameina.

Gæludýr vísindafólks

Klínískar rannsóknir

Klínískar rannsóknir eru gerðar á fólki, veiku eða heilbrigðu. Þær eru aldrei gerðar nema ítarlegar grunnrannsóknir bendi til að gagnsemi þess sem prófað er sé meiri en möguleg skaðsemi og lúta ströngum öryggiskröfum. Klínískar rannsóknir eru til dæmis gerðar til að skoða eða bera saman árangur lyfja, meðferða og aðgerða.

Færsluvísindi (translational research)

Þessi gerð rannsókna færir þekkingu úr grunnvísindum yfir í klíník. Dæmi um slíka rannsókn væri að rannsaka á tilraunastofu áhrif lyfjameðferðar á frumur sem ræktaðar eru úr einstaklingi með krabbamein og spá þannig fyrir um hvaða lyfjameðferð hentar best fyrir þennan tiltekna einstakling.

Þróun eða hagnýting nýrrar tækni

Rannsóknir á hagnýtingu tækni, sem annað hvort hefur verið þróuð sérstaklega fyrir rannsóknina eða er verið að prófa í nýju samhengi.

Faraldsfræðilegar rannsóknir

Faraldsfræðilegar rannsóknir á útbreiðslu og orsökum krabbameina. Með þeim má til dæmis finna tengsl milli reykinga og lungnakrabbameins og algengi ákveðinna krabbameina á Íslandi.

Hér má sjá hversu sérhæft mál er stundum notað í tengslum við rannsóknir og hvernig vísindafólkið sjálft reynir að leita eftir orðum sem almenningur skilur.

Tungutak vísindafólks