Vinnufélagar og vinir
Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. Flestir vilja leggja sitt af mörkum til að vera til staðar, en mörgum reynist flókið að átta sig á með hvaða hætti þeir geti orðið að liði. Þeir sem standa þeim næst sem greinst hafa með krabbamein þurfa oftar en ekki stuðning, rétt eins og sá sem greinist, og vinir, fjarskyldari ættingjar og vinnufélagar hafa eftir atvikum oft betri tækifæri til að veita hann.
Að greinast með krabbamein hefur víðtæk áhrif á fólk, m.a. andleg, líkamleg og fjárhagsleg. Áhrifin eru misjöfn hjá hverjum einstaklingi fyrir sig og ráðast af ýmsum þáttum, svo sem tegund krabbameins, á hvaða stigi það er, meðferðinni sem viðkomandi fer í, kyni, aldri, persónuleika og fjölskylduhögum.
Að meðferð lokinni gerir fólk oft ráð fyrir að heilsan verði aftur eins og hún var áður en krabbameinið greindist. Raunin er þó sú að margir finna fyrir úthalds- og einbeitingarleysi, jafnvel löngu eftir að meðferð lýkur. Andleg áhrif þess að hafa greinst með krabbamein eru einnig oft verulega mikil. Sumir eiga erfitt með að ná aftur jafnvægi í tilverunni og sitja uppi með flóknar tilfinningar og langtímafylgikvilla sem tengjast meðferð. Þörfin fyrir stuðning og aðlögun er því ekki síður mikilvæg að meðferð lokinni.
Nokkur ráð:
- Leitastu við að sýna skilning, hlustaðu og sýndu áhuga, án óþarfrar hnýsni. Sýndu nærgætni og reyndu að vega og meta hvað hentar viðkomandi. Sumir eiga auðvelt með að tala frjálslega um veikindi sín en aðrir vilja sem minnst um þau ræða.
- Spurðu beint út hvort og þá hvernig hægt sé að aðstoða viðkomandi. Það veitist mörgum erfitt að biðja um aðstoð. Ef aðstoð er afþökkuð er gott að láta viðkomandi vita að boðið standi áfram.
- Sýndu sveigjanleika gagnvart því að breyta skipulagi og koma til móts við breyttar aðstæður.
- Forðastu að gefa ráðleggingar eða að bera reynslu viðkomandi saman við reynslu annarra sem þú þekkir nema að biðja um leyfi fyrir því áður.
- Hvettu vinnufélaga sem þarf að vera alveg frá vinnu í lengri eða skemmri tíma til að halda sambandi við vinnustaðinn. Það getur t.d. verið með því að hafa tengilið sem heyrir reglulega í viðkomandi, eða með því að bjóða viðkomandi að vera með þegar starfsfólk hittist. Þó þarf að virða ef vinnufélaginn vill ekki eða treystir sér ekki til að halda sambandi.
Upplýsingar fyrir yfirmenn
Krabbameinsfélagið býður vinnuveitendum og samstarfsmönnum upplýsingar og ráðgjöf um hvernig hægt er að styðja við starfsmann við greiningu, í meðferð, að meðferð lokinni og þegar snúið er aftur til vinnu.
Vinnan getur skipt miklu máli fyrir marga sem greinst hafa með krabbamein. Vinnan getur veitt ákveðið öryggi og festu á meðan hversdagslíf viðkomandi getur verið gerbreytt að öðru leyti vegna sjúkdómsins. Að halda tengslum við vinnufélaga getur einnig að einhverju leyti uppfyllt félagslegar þarfir og dregið úr einangrun.
Það fer þó eftir eðli starfsins, einstaklingnum, líðan og þeirri meðferð sem veitt er hvort viðkomandi geti haldið áfram að vinna (að fullu eða að hluta) eða þurfi að fara í veikindaleyfi.
Miklu máli skiptir að þú ræðir sem fyrst við starfsmann sem greinst hefur með krabbamein um það hvað samstarfsfólk fær að vita. Það er starfsmannsins sjálfs að ákveða hvort öðrum á vinnustaðnum er greint frá stöðunni eða ekki. Vert er þó að benda viðkomandi á að ef vinnufélagar fá að vita af veikindunum er líklegra að þeir sýni skilning á fjarveru eða breytingum á vinnutilhögun.
Ef starfsmaður vill að aðrir séu upplýstir um veikindi hans þurfið þið að koma ykkur saman um:
- hver eigi að upplýsa starfsfólk
- hvernig eigi að standa að því og hvort viðkomandi vill vera viðstaddur eða ekki
- hverju eigi að segja frá og hverju ekki
Þegar upplýst er um stöðuna ætti aðallega að ræða um hver áhrifin gætu orðið á starfsfólk og vinnuna sjálfa en reyna að forðast að segja frá persónulegum smáatriðum nema viðkomandi hafi óskað eftir því. Nota ætti jákvætt orðalag og tala af bjartsýni, en segja þó raunsætt frá því við hverju er að búast.
Verum meðvituð um réttindi starfsmannsins:
- Sýndu sveigjanleika gagnvart því að breyta skipulagi og koma til móts við breyttar aðstæður, í samráði við starfsmanninn. Undirbúðu hvernig endurkomu til vinnu verði háttað.
- Komdu til móts við skerta starfsgetu starfsmannsins, bæði meðan á meðferð stendur og á eftir. Það má t.d. gera með sveigjanlegum vinnutíma, möguleika á heimavinnu, auknum sveigjanleika til hreyfingar og hvíldar á vinnutíma, styttri starfsdögum og einfaldari verkefnum. Oft er erfitt fyrir starfsmann að biðja um svona hluti en auðveldara að þiggja þegar yfirmaður býður það að fyrra bragði.
- Hafðu í huga að veikindi starfsmannsins geta haft veruleg áhrif á starfshópinn allan og andrúmsloft á vinnustaðnum.