Beint í efni

Hvað get ég gert til að vera til staðar?

Hvernig er hægt að leggja lið?

Vinir, ættingjar og kunningjar geta verið mjög dýrmætur stuðningur fyrir einstakling sem tekst á við krabbamein, sem og maka eða nánustu aðstandendur.  

Bæði getur tilfinningalegur stuðningur og praktísk aðstoð af ýmsu tagi komið sér vel á erfiðum tímum. 

Þegar einstaklingur greinist með krabbamein getur bæði hann og maki eða nánustu aðstandendur upplifað erfiða líðan og tilfinningar sem geta jafnvel verið hálfyfirþyrmandi. Það getur haft verulega mikið að segja að það sé fólk í kring sem getur hlustað, veitt nærveru, sýnt skilning og umhyggju.  

Bein aðstoð getur líka komið sér ákaflega vel í svona aðstæðum. Það gæti til dæmis falist í að létta undir á ýmsan hátt, til dæmis varðandi innkaup, heimilisstörf eða akstur í læknisheimsóknir. Slík aðstoð getur létt á álaginu og gefið nánustu fjölskyldunni svigrúm sem getur verið þeim dýrmætt enda skiptir miklu máli að nánustu ættingjar setji ekki allar sínar þarfir til hliðar. Það getur komið niður á heilsu þeirra og það kemur sér illa fyrir alla í stöðunni.  

Það getur líka skipt máli að vinir og ættingjar fagni litlum sigrum þegar sjúklingur er á batavegi. Það getur vakið sterkar, jákvæðar tilfinningar þegar fólk finnur að í kringum það er stuðningsnet einstaklinga sem er annt um þau, styður þau í erfiðleikum og gleðst með þegar áfangasigrar verða. Það getur gefið aukna von og kraft að vita af og finna fyrir slíkum stuðningi. 

Hvernig er hægt að leggja lið? 

Það er gott ef þú hefur frumkvæðið, því mörgum þykir erfitt að biðja um aðstoð. Þú getur spurt hvað henti vel eða komið með beinar uppástungur. Ef aðstoð er afþökkuð er gott að láta vita að boðið standi samt áfram, þú sért til staðar. Gleymdu heldur ekki að stundum er nærvera það besta sem þú getur veitt.

Dæmi um hvað gæti gagnast:

  • Aðstoð við heimilisstörf, verslunarferðir, garðvinnu, gæludýr, viðhald bíla o.fl.
  • Að koma með mat, jafnvel þannig að hægt sé að eiga í frysti.
  • Akstur og/eða fylgd í læknaviðtöl, meðferðir og þess háttar.
  • Aðstoð með börn, t.d. rólóferðir, skutl og sækingar, boðið í heimsókn.
  • Að vera til staðar fyrir spjall, hlustun og nærveru.
  • Símtöl, tölvupóstar og uppörvandi skilaboð.
  • Að þú stingir upp á og bjóðir til upplyftingar, t.d. gönguferðir, spil, ökuferðir, tónleika.

Þó að meðferð sé lokið getur af ýmsum ástæðum verið þörf fyrir aðstoð mun lengur.

Sjá líka greinina „Láttu mig vita ef ég get gert eitt­hvað fyr­ir þig“