Beint í efni

Að styðja ein­hvern með krabba­mein

Þegar við verðum fyrir áfalli og erfiðar breytingar verða í lífinu er eðlilegt að alls konar hugsanir og tilfinningar geri vart við sig. Til að byrja með gætir þú upplifað dofa eða sterkar tilfinningar eins og örvinglan, skapsveiflur, ótta, kvíða eða reiði. Það er líka eðlilegt að upplifa depurð, sorg og áhugaleysi varðandi margt sem venjulega er nærandi fyrir þig. Einnig er gott að vita að í þessum aðstæðum er eðlilegt að upplifa eirðarleysi og erfiðleika við að einbeita sér og muna.

Misjafnt er hvernig hver og einn bregst við og tekst á við erfiða atburði í lífinu og ekkert rétt eða rangt í þeim efnum. Viðbrögð geta líka ráðist af því hvernig sambandinu við þann sem greinist er háttað, hversu alvarleg eða umfangsmikil veikindin eru og hversu mikil áhrif þau hafa á daglegt líf ykkar.

Þegar breytingar verða sem raska fjölskyldulífinu skapast oft álag og streita. Til dæmis getur sá sem greinist með krabbamein ekki alltaf sinnt öllum þeim hlutverkum sem hann er vanur að sinna vegna einkenna frá sjúkdómnum eða krabbameinsmeðferð. Þetta gæti valdið auknu álagi á þig og aðra í fjölskyldunni á sama tíma og þú ert að reyna að átta þig á breyttri stöðu og eigin tilfinningum. Þú getur því verið að takast á við það að vilja vera til staðar en samtímis fundið fyrir vanlíðan og ójafnvægi og haft þörf fyrir svigrúm, stuðning eða ráðgjöf.

Nokkur ráð:

  • Þegar álagið er mikið hættir aðstandendum til að vanrækja sig. Það er hins vegar afar mikilvægt að þú mætir í tíma sem þú átt hjá læknum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki og munir að taka inn þín lyf og vítamín. Ef þú finnur fyrir einkennum eins og verk fyrir brjósti, hjartsláttartruflunum, verkjum frá stoðkerfi eða svefntruflunum er mikilvægt að leita til læknis. Mundu að þín heilsa er jafn mikilvæg og heilsa ástvinar þíns. 
  • Leyfðu þér að tjá líðan þína, t.d. við góðan vin, einhvern sem þú treystir eða fagaðila. 
  • Reyndu að átta þig á hvað væri gott að fá aðstoð við og leyfðu þér að þiggja eða biðja um hjálp. Fyrir marga er þetta stórt skref og mikill lærdómur. Það gæti til að mynda verið gott að fá aðstoð með börn, innkaup, útréttingar og matseld. 
  • Gefðu þér áfram tíma fyrir þín áhugamál og það sem nærir þig. Það gefur þér orku til að takast á við aðstæður og er öllum til góða. 
  • Mundu að þú hefur líka leyfi til að bogna og fá útrás fyrir tilfinningar þínar. Þú þarft ekki alltaf að fela þær því oft vill sá sem hefur greinst fá að vera áfram í hlutverki sem t.d. maki, foreldri eða vinur. Þið þurfið ekki alltaf að hlífa hvert öðru. 
  • Mörgum reynist gagnlegt að halda reglu á svefni, borða heilsusamlega og stunda hreyfingu. 
  • Sýndu þér þolinmæði og skilning og mundu að þú ert að gera þitt besta.