Beint í efni

Stuðn­ing­ur við að­stand­end­ur

Hefur þú þörf fyrir stuðning, ráðgjöf eða spjall? Hjá  Krabbameinsfélaginu geta aðstandendur fólks sem greinst hefur með krabbamein fengið ýmsar upplýsingar, ráðgjöf og stuðning.

Makar og nánir aðstandendur ganga oft í gegnum erfiða og flókna tíma í kjölfar krabbameinsgreiningar ástvinar. Þeir taka þá gjarnan á sig aukna ábyrgð og skyldur og setja þá oft um leið eigin þarfir til hliðar. Það getur reynst flókið að huga að þörfum þess sem tekst á við krabbamein á sma tíma og þú ert að takast á við allskonar tilfinningar og breytingar á lífinu.

Krabbameinsfélagið býður aðstandendum faglega ráðgjöf, fræðslu, djúpslökun, ýmis námskeið og leiðbeinum fólki með að vera meðvituð um réttindi sín og hvert það geti leitað.

Misjafnt getur verið hvor og hvenær þörf fyrir stuðning skapast í veikindaferlinu. Stundum gerist það ekki fyrr en að meðferð er lokið og við tekur að melta allt það sem á undan er gengið. Það getur verið að þörfin fyrir stuðning og úrvinnslu komi ekki fram fyrr nokkuð langt er liðið frá veikindunum eða ef þau taka sig upp aftur.

Þjónusta Krabbameinsfélagsins við aðstandendur stendur til boða hvort sem ástvinur er nýgreindur með krabbamein eða er með langvinnan sjúkdóm. 

Algengar ástæður fyrir því að aðstandendur leiti til Krabbameinsfélagsins:

  • Ég finn fyrir depurð og/eða kvíða.
  • Ég þarf að koma athugasemd á framfæri.
  • Ég upplifi sorg.
  • Ég hef áhyggjur af fjárhagnum.
  • Ég þarfnast stuðnings og ráðlegginga.
  • Mig vantar upplýsingar um þjónustu, stuðning og réttindamál.
  • Ég þarf fræðslu um hvernig ég ræði við börnin mín um krabbamein.
  • Ég fékk slæmar fréttir í dag og þarf tala við einhvern.

Við hjá Krabbameinsfélaginu erum til staðar þegar á þarf að halda, ráðgjafar okkar eru fagaðilar; sálfræðingar, félagsráðgjafar og hjúkrunarfræðingar. Markmið okkar er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi við breyttar aðstæður í lífinu, veita stuðning og nauðsynlegar upplýsingar.

Þjónustan er öllum opin og hægt er að koma án þess að gera boð á undan sér.

Ráð­gjöf og stuðn­ing­ur þér að kostn­að­ar­lausu

Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.