Beint í efni

Um rann­sókn­ina

Rannsóknin ber heitið Lífsgæði, langvinn og síðbúin áhrif krabbameins og krabbameinsmeðferðar: Lýðgrunduð samanburðarrannsókn hjá einstaklingum sem hafa greinst með krabbamein á Íslandi og er samvinnuverkefni Krabbameinsfélags Íslands, Háskóla Íslands, Landspítala og sérfræðings við hollenskar rannsóknarstofnanir.  

Markmið

Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á síðbúnar og langvinnar aukaverkanir sem geta haft áhrif á lífsgæði þeirra sem hafa greinst með krabbamein.

Lífsgæði og heilsa fólks sem hefur greinst með krabbamein, og ýmist er í krabbameinsmeðferð eða hefur lokið henni, verður borin saman við lífsgæði og heilsu fólks sem aldrei hefur greinst með krabbamein.

Hvers vegna?

Niðurstöður rannsóknarinnar munu auka þekkingu á áhrifum krabbameins og krabbameinsmeðferðar á líðan og lífsgæði og þannig leggja til mikilvægar upplýsingar til að þróa nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Niðurstöðurnar verða notaðar til að breyta og bæta þjónustu við þá sem eru í krabbameinsmeðferð og einnig  þróa þjónustu fyrir einstaklinga sem lokið hafa krabbameinsmeðferð og glíma við skert lífsgæði í kjölfar þess.  

Þáttakendur

  • Öllum sem greindust með krabbamein á árunum 2014 til og með 2024 og voru 18 ára eða eldri við greiningu, alls 10.000 einstaklingum, er boðið að taka þátt í  rannsókninni. Þetta geta verið einstaklingar sem lokið hafa meðferð eða eru í krabbameinsmeðferð.

  • Sex þúsund einstaklingum, 18 ára og eldri, sem ekki hafa greinst með krabbamein voru valdir af handahófi úr Þjóðskrá og boðið að vera hluti af samanburðarhópi.
    Einstaklingar í samanburðarhópi gegna lykilhlutverki í rannsókninni þar sem samanburður við almenning er nauðsynlegur til að skilja betur áhrif krabbameins og krabbameinsgreiningar á lífsgæði.

Rannsóknarteymið

Rannsóknin er samvinnuverkefni Krabbameinsfélags Íslands, Háskóla Íslands, Landspítala og sérfræðings við hollenskar rannsóknarstofnanir.

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Dr. Sigríður Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs - Krabbameinsskrár hjá Krabbameinsfélagi Íslands og prófessor við Háskóla Íslands og Landspítala.

Meðrannsakendur rannsóknarinnar eru:

·       Freyja Birgisdóttir, fulltrúi einstaklinga sem hafa lokið meðferð við krabbameini

·       Helga Tryggvadóttir, sérfræðilæknir í krabbameinslækningum á Landspítala

·       Helgi Birgisson, yfirlæknir hjá Rannsóknasetri - Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands

·       Lonneke van de Poll Franse, prófessor við Netherlands Comprehensive Cancer Organisation, Netherlands Cancer Institute og Tilburg University

·       Nanna Friðriksdóttir, sérfræðingur í hjúkrun krabbameinssjúklinga á Landspítala og aðjunkt við Háskóla Íslands

·       Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands

Aðrir starfsmenn rannsóknar:

·       Eva María Guðmundsdóttir, Rannsóknasetur - Krabbameinsskrá, sérfræðingur

·       Nanna Margrét Kristinsdóttir, Rannsóknasetur - Krabbameinsskrá, sérfræðingur

·       Kristjana Sigurðardóttir, Rannsóknasetur - Krabbameinsskrá, gagnagrunnsstjóri

·       Vígdís Guðmundsdóttir, Krabbameinsfélag Íslands, sérfræðingur

Merkin

Ef þú hefur fleiri spurningar um rannsóknina eða vilt frá frekari upplýsingar um þátttöku þína, þá getur þú sent póst á netfangið: lifsgaedi@krabb.is