Beint í efni

Brjósta­krabba­mein

Krabbamein í brjóstum er algengasta krabbamein hjá íslenskum konum og er nærri þriðjungur af öllum meinum sem greinast hjá konum. Brjóstakrabbamein er hægt að greina snemma með skimun og eru skimanir ein helsta ástæða þess að lífshorfur vegna brjóstakrabbameina hafa batnað verulega undanfarin ár.

Einnig hafa framfarir í greiningartækni, meðferðarmöguleikum og meiri þekking almennings á einkennum sem gætu bent til  krabbameins haft mikið að segja.

Því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist, þeim mun betri eru lífshorfur.

  • Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein hjá íslenskum konum.
  • Flestar konur sem greinast eru komnar um eða yfir miðjan aldur.
  • Vitað er að tilteknar stökkbreytingar í genunum BRCA1 og BRCA2 auka líkur á brjóstakrabbameini.
  • Karlar eru um 1% þeirra sem greinast með brjóstakrabbamein.

Hvað er brjóstakrabbamein?

Í brjóstvef er fjöldi mjólkurkirtla sem tengjast geirvörtunni með kerfi mjólkurganga.

Brjóstakrabbamein byrjar í flestum tilfellum í frumum í mjólkurgöngum, en meinin geta einnig myndast frá frumum mjólkurkirtla eða í einstaka tilfellum frá öðrum frumum í brjóstinu.

Undanfari brjóstakrabbameins eru oftast staðbundin mein, kölluð setkrabbamein, sem ekki hafa öðlast getu til að dreifa sér út fyrir brjóstið. Þessi staðbundnu mein geta með tímanum þróast yfir í að vera svokallað ífarandi brjóstakrabbamein sem getur dreift sér út fyrir brjóstið og myndað meinvörp, t.d.  í eitlum í holhönd og víðar í líkamanum.

Stundum greinast brjóstakrabbamein meðan þau eru staðbundin, en mun algengara er að þau greinist þegar þau eru orðin ífarandi sjúkdómur.

Helstu einkenni

Helstu einkenni sem geta bent til brjóstakrabbameins eru:

  • Hnútur eða fyrirferð í brjósti, oft harður eða þéttur og sjaldan aumur. Flestir hnútar í konum á frjósemisaldri eru góðkynja en þeir eru þá oft vel afmarkaðir og eru hreyfanlegir undir fingrum.
  • Hnútur í handarkrika getur verið merki um meinvarp en hjá grannholda konum geta eðlilegir eitlar líkst hnútum.
  • Inndregin húð eða geirvarta. Ef geirvarta hefur verið inndregin frá kynþroska er það eðlilegt ástand. Geirvörtur geta einnig dregist inn vegna aldurstengdra breytinga en alltaf er rétt að láta lækni meta slíkt.
  • Blóðug eða glær útferð frá geirvörtu getur verið merki um sjúkdóminn eða af saklausum toga. Dökkbrúnleit, gulleit og grænleit útferð er saklaus.
  • Exemlíkar breytingar á geirvörtu eða sár sem ekki grær þarf að skoðast af lækni.
  • Áferðarbreyting á húð, til dæmis að hún verði ójöfn.

Ef einkenni eru í brjóstum þá er fyrsta skref að leita til heimilislæknis eða heilsugæslustöðvar sem metur þörf fyrir frekari rannsóknir og sendir beiðni ef þörf er á frekari skoðun.

Verkir og eymsli í brjóstum

Verkir og eymsl í brjóstum eru mjög algeng og oftast saklaus. Þau geta stafað af kvenhormónum eða frá stoðkerfi — til dæmis vöðvum í síðu, undir brjósti, baki og öxl. Einnig getur millirifjagigt leitt til sárra verkja í brjósti.

Í einstaka tilfellum geta verkir þó verið fyrsta einkenni brjóstakrabbameins, en það er sjaldgæft.

Einkenni til að vera vakandi fyrir

Við höfum tekið saman myndrænt yfirlit yfir helstu einkenni sem þú ættir að vera vakandi fyrir. Dragðu lárétt til að sjá fleiri myndir.

  • Skýringarmynd með algengum einkennum brjóstakrabbameins
  • Hnútur eða fyrirferð í brjósti, ofar á bringu eða í handarkrika.
  • Útbrot, hreistrug húð eða sár sem ekki grær á geirvörtu eða kringum hana
  • Vökvi fer að leka úr geirvörtu
  • Roði, hiti, bólga eða litabreytingar í húð
  • Áferðarbreyting á húð, er t.d. ójöfn
  • Breytingar á geirvörtu, t.d. að hún hafi dregist inn
  • Breytingar á lögun eða stærð brjósta

Lærðu að þreifa brjóstin

Stutt myndband með leiðbeiningum um sjálfsskoðun brjósta

Greining brjóstakrabbameins

Brjóstakrabbamein uppgötvast oftast í skimun (skipulagðri hópleit) eða þegar konur uppgötva sjálfar þéttingu eða hnút í brjósti – eða verða varar við önnur einkenni sem bent geta til krabbameins í brjósti.

Kynntu þér leiðbeiningar um sjálfsskoðun brjósta.

Í skimun eru teknar röntgenmyndir af brjóstum og ef sú myndataka leiðir eitthvað í ljós sem talið er að þurfi að skoða nánar er konan boðuð í frekari rannsóknir. Mikilvægt er að konur panti sér tíma í skimun þegar þær fá boð um slíkt.

Grunur um krabbamein er staðfestur með greiningu á sýni sem tekið er úr meininu. Slík greining beinist meðal annars að því hvort um er að ræða góðkynja eða illkynja frumubreytingar.

Greiningaraðferðir

Helstu aðferðir sem beitt er við greiningu brjóstakrabbameins:

  • Skipuleg hópleit byggir á því að leitað er vísbendinga um krabbamein í brjóstum hjá heilbrigðum, einkennalausum konum á ákveðnu aldursbili. Þær fá með reglubundnum hætti boð um að koma í röntgenmyndatöku.

  • Röntgenmyndataka er meðal annars notuð við skimun og gerir kleift að greina mein áður en einkenni koma fram. Ef eitthvað óeðlilegt kemur fram í myndatökunni er konan boðuð í frekari rannsóknir.

  • Við grun um krabbamein rannsakar læknir brjóstin og kirtla í holhönd og hálsi. Ef þörf er á getur læknir vísað konu í röntgenmyndatöku eða töku frumusýnis.

  • Sýnataka úr meinsemd felur í sér að frumur eru sogaðar úr meininu með nál eða vefjasýni er tekið. Sýnið er síðan rannsakað í smásjá. Frumugreining leiðir yfirleitt til nákvæmrar greiningar sem hefur áhrif á mögulega meðferð.

  • Ef mein er fjarlægt er gerð meinafræðileg rannsókn á vefnum og meðal annars rannsakað hvaða æxlisgerð er um að ræða, stærð þess og ýmsir aðrir þættir sem geta haft áhrif á meðferð.

Meðferð við brjóstakrabbameini

Meðhöndlun brjóstakrabbameins byggir á samvinnu fagaðila með ólíka sérþekkingu. Miklar framfarir hafa orðið undanfarin ár í meðferð krabbameina í brjósti og hefur það stuðlað að bættum lífshorfum þeirra sem greinast með brjóstakrabbamein.

  • Fyrsta meðferð er yfirleitt skurðaðgerð. Fleygskurður felst í því að fjarlægja æxlið ásamt dálitlu af eðlilegum brjóstvef í kringum  meinið. Breytilegt er hve marga eitla þarf að fjarlægja í brjósti eða holhönd. Í sumum tilvikum er mælt með brjóstnámi – sem felst í því að fjarlægja allt brjóstið – til dæmis ef tvö eða fleiri æxli finnast í brjóstinu.

  • Algengast er að geislameðferð sé beitt eftir fleygskurð á þann brjóstvef sem eftir er. Það er gert til að draga úr líkum á endurkomu sjúkdómsins.

  • Stundum er lyfjameðferð beitt fyrir skurðaðgerð til að reyna að minnka æxlið svo að aðgerðin verði umfangsminni.

    Í flestum tilfellum er talið ráðlegt að fylgja fyrri þáttum meðferðar (skurðaðgerð og hugsanlega geislameðferð) eftir með lyfjameðferð. Þá gæti verið notað eitthvað samspil af:

    • andhormónalyfjum
    • krabbameinslyfjum
    • líftæknilyfjum

    Í tilfellum þar sem brjóstakrabbamein  hefur dreift sér í önnur líffæri er lyfjameðferð oft aðalmeðferðin og beinist þá að því að halda sjúkdómnum í skefjum

Áhættuþættir og forvarnir

Engin ein orsök á við um öll brjóstakrabbamein, en þekkt er að nokkrir þættir geta aukið líkur á því:

  • Erfðir og fjölskyldusaga
    Talið er að innan við 10% brjóstkrabbameina tengist erfðum. Fundist hafa stökkbreytingar í ákveðnum genum sem kallast BRCA1 og BRCA2 sem auka verulega hættu á brjóstakrabbameinum. Einnig eru meinin líklegri til að myndast fyrr, þegar konurnar eru yngri.

    Sjá nánar um stökkbreytingar í BRCA genum.
  • Kvenhormón
    Kvenhormón skipta miklu máli varðandi myndun brjóstakrabbameina. Áhættan á brjóstakrabbameinum eykst lítillega með fjölda tíðahringja, til dæmis hjá konum sem byrja ungar á blæðingum og þeim sem fara mjög seint á breytingaskeið. Hins vegar er áhættan minni hjá konum sem eignast fyrsta barn mjög ungar og þeim sem eignast mörg börn.

    Langvarandi notkun samsettrar getnaðarvarnarpillu (sem inniheldur bæði estrógen og prógesterón) tengist einnig aukinni áhættu. Notkun tíðahvarfahormóna hefur áhættuaukningu í för með sér og er almennt ráðlagt að þau séu ekki tekin lengur en í fimm ár en meta þarf þó hvert tilfelli fyrir sig.

Tölfræði og lífshorfur

Almennt gildir að því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist, þeim mun betri eru lífshorfur. 

Ýmsar framfarir t.d. varðandi skimanir, greiningartækni og meðferðarmöguleika hafa leitt til þess að lífshorfur hafa batnað mikið undanfarna áratugi. 

Karlar geta einnig fengið brjóstakrabbamein en um 1 karl greinist á móti hverjum 100 konum.

Upplýsingar frá Krabbameinsskrá

Ítarefni og nánari upplýsingar