Beint í efni
Maður labbar upp stiga

Lík­ams­þyngd

Líkamsþyngd hefur áhrif á krabbameinsáhættu. Ofþyngd og sérstaklega offita geta aukið líkur á ýmsum tegundum krabbameina. Líkurnar á krabbameinum aukast eftir því sem þyngdin er meiri.  

Lífshættir eins og hollt mataræði, heilsusamleg líkamsþyngd og hreyfing haldast oft í hendur og því er erfitt að segja til um áhrif hvers þáttar fyrir sig. Sterkar vísbendingar eru þó um að draga megi úr hættu á krabbameini með því að borða hollan mat, viðhalda heilsusamlegri líkamsþyngd og hreyfa sig reglulega. 

  • Heilsusamleg líkamsþyngd er breytileg eftir einstaklingum og fer eftir mörgum þáttum, þar á meðal aldri, kyni, líkamsgerð, vöðvamassa og almennu heilsufari. 

    Algeng leið til að meta heilbrigða líkamsþyngd er líkamsþyngdarstuðullinn BMI. Líkamsþyngdarstuðull er ekki nákvæmt mælitæki og gerir t.d. ekki greinarmun á fitu- og vöðvamassa, en getur gefið vísbendingar um það hvort líkamsþyngd sé innan heilsusamlegra marka, eða hvort hún sé of mikil eða of lítil. Líkamsþyngdarstuðull er reiknaður með því að deila þyngd einstaklings í kílóum með líkamshæð í metrum í öðru veldi, þyngd(kg)/hæð(m)2. Samkvæmt stuðlinum flokkast BMI 18,5-24,8 sem kjörþyngd, BMI 25-29,9 sem ofþyngd og BMI yfir 30 sem offita.  

    Önnur leið til að meta umframþyngd er að mæla mittismál.  Mittismál innan við 94 cm hjá körlum og 80 cm hjá konum telst innan eðlilegra marka. Mittismál yfir 102 cm hjá körlum og 88 cm hjá konum er vísbending um ofþyngd eða offitu. Fita sem sest framan á kvið er talin hættulegri en önnur fita, þ.e. líklegri til að leiða til sjúkdóma. 

    Ofþyngd og offita er áhættuþáttur fyrir marga sjúkdóma, s.s. sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdóma og margar tegundir krabbameina, en offita er einnig flókinn langvinnur sjúkdómur í sjálfu sér. Þannig má segja að heilsusamleg líkamsþyngd sé þyngd sem er ólíkleg til að valda ofantöldum sjúkdómum. 

Hvernig getur aukin líkamsþyngd aukið áhættu á krabbameinum?

Nokkrar mögulegar skýringar eru á því hvers vegna ofþyngd og offita auka hættuna á ákveðnum tegundum krabbameina. Þar ber helst að nefna að umfram líkamsfita getur valdið breytingum á hormónaframleiðslu líkamans, langvarandi bólgum og truflun á ákveðnum efnaskiptum sem allt getur stuðlað að þróun krabbameina. 

Hvers konar krabbamein tengjast helst offitu eða ofþyngd?

Krabbameinstegundirnar sem offita og ofþyngd auka líkur á að þróist eru krabbamein í ristli og endaþarmi, nýrum, skjaldkirtli, maga, vélinda, lifur, brisi og gallblöðru, munni, koki og barkakýli, heilaæxli og mergæxli. Enn fremur aukast líkur á krabbameini í brjóstum (eftir tíðahvörf), legslímu og eggjastokkum hjá konum með offitu. Þetta eru nokkrar af algengustu krabbameinstegundunum í Evrópu.

Orsakir ofþyngdar og offitu

Orsakir ofþyngdar eru flóknar og margþættar. Ein ástæða er ójafnvægi milli orkuinntöku og orkunotkunar en aðrar ástæður eru t.d. erfðir, áföll, streita, félagslegir þættir og umhverfið sem fólk lifir og hrærist í.

Síðustu áratugi hefur meðallíkamsþyngd Íslendinga aukist verulega. Nú er um 70% fullorðinna í ofþyngd og þar af eru um 30% með offitu. 

Til að draga úr þyngdaraukningu og/eða viðhalda líkamsþyngd er mikilvægt að hreyfa sig daglega í a.m.k. 30 mínútur, takmarka skjátíma utan vinnu og skóla, borða ríflega af heilkornavörum, grænmeti, ávöxtum og baunum og takmarka neyslu á mikið unnum, söltum og sykruðum matvörum og sykruðum drykkjum.