Beint í efni

Lyfja­með­ferð

Krabbameinslyfin berast með blóðrásinni um líkamann, hvort sem þau eru gefin í æð, vöðva eða í töfluformi.

Þess vegna hafa þau ekki einungis áhrif á krabbameinsfrumurnar heldur einnig á aðrar frumur líkamans. Þetta á aðallega við um frumur sem eru hraðar í vexti og skipta sér oft eins og frumur í beinmerg, slímhúð meltingarvegar, kynkirtlum og hársverði. Áhrifin á þessar frumur eru tímabundin, þar sem þær koma til með að endurnýja sig.

Til eru margar tegundir krabbameinslyfja sem vinna á mismunandi hátt á krabbameinsfrumum. Því getur reynst nauðsynlegt að gefa fleiri en eitt lyf í senn, en það fer eftir eðli sjúkdómsins hvernig samsetning lyfjameðferðarinnar er. Lyfin er hægt að gefa á mismunandi hátt, allt eftir því hvaða krabbamein er verið að meðhöndla. Algengast er að gefa lyfin í æð, en einnig í töfluformi, inngjöf í vöðva, undir húð eða í vökvarýmið umhverfis mænu. Í sumum tilvikum er fleiri en ein leið notuð.

Það er einstaklingsbundið hversu oft og hve lengi lyfin eru gefin. Einnig er mismunandi hversu langur tími líður á milli lyfjagjafa. Hver lyfjagjöf getur staðið í nokkrar mínútur, klukkustundir eða nokkra daga í einu. Algengt er að gefa lyfin með 3-4 vikna millibili í 1-2 ár.

Meðferðin er oftast gefin á göngu- og dagdeildum en stundum krefst hún innlagnar á legudeild. 

Við hvetjum alla til að leita upplýsinga um sína meðferð, mögulegar aukaverkanir og þau úrræði sem í boði eru hjá sínum lækni og hjúkrunarfræðingi.

Hér er að finna bæklinginn Léttu þér lífið í lyfjameðferð þar sem er að finna ýmis ráð sem gætu gagnast þeim sem gangast undir lyfjameðferð, fjölskyldu þeirra og vinum.