Geislameðferð
Þegar geislameðferð hefur verið ákveðin er meðferðarsvæðið ákvarðað með hjálp röntgenmyndatöku og oft sneiðmyndatöku.
Svæðið sem á að meðhöndla er afmarkað á húðinni með sérstökum penna sem verður að sjást allt meðferðartímabilið. Stundum er útbúið stuðningsmót til að auðvelda legu í sömu stellingu meðan á meðferð stendur.
Sumir þurfa að koma einu sinni í undirbúning, aðrir tvisvar til þrisvar. Hver heimsókn tekur frá hálftíma og upp í tvær klukkustundir. Heildarundirbúningstími getur tekið allt að viku.
Meðferð
Tímalengd geislameðferðar er breytileg. Sumir koma í eitt skipti, aðrir daglega í nokkrar vikur. Hver meðferð tekur aðeins nokkrar mínútur og er sársaukalaus. Við geislameðferð er notuð háorkuröntgengeislun eða rafeindageislun og hún veldur ekki geislavirkni.
Líðan fólks meðan á meðferð stendur er einstaklingsbundin. Algengar aukaverkanir eru þreyta bæði meðan á henni stendur og í nokkurn tíma á eftir, aðrar eru háðar því hvar á líkamann geislun er gefin og stærð geislasvæðis.
Sjúkrahúsvist vegna geislameðferðar er yfirleitt óþörf. Margir stunda áfram sína vinnu og sinna áhugamálum.
Hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar og læknar deildarinnar fylgjast með og eru til taks á meðferðartímabilinu. Þau veita frekari upplýsingar um meðferðina, aukaverkanir og úrræði.
Þegar geislameðferð lýkur tekur við eftirlit hjá krabbameinslækni.