Beint í efni

Eft­ir með­ferð

Krabbameinsmeðferð reynir á, hvort sem það er skurðaðgerð, lyfjameðferð, geislameðferð eða aðrar meðferðartegundir og oft þarf að beita fleiri en einni tegund meðferðar.

Það getur verið áskorun að takast á við lífið eftir krabbameinsmeðferð. Ef til vill eru aðstæður breyttar og lífið horfir öðruvísi við. Þá er óttinn við að endurgreinast mestur fyrsta árið eftir að krabbameinsmeðferð lýkur.

Mikilvægt er að ætla sér ekki um of. Það skiptir miklu máli að hlusta á líkamann og fara hægt af stað. Krabbameinsmeðferð getur haft mikil og langvarandi áhrif á heilsufar og líðan. Úthaldið getur verið minna í dag en í gær og orkan getur sveiflast milli daga. 

Að lifa með krabbameini

Lífshorfur þeirra sem greinast með ólæknandi krabbamein hafa aldrei verið betri en í dag, þökk sé framþróun í meðhöndlun og greiningu krabbameina.

Oft er hægt að halda sjúkdómnum lengi niðri. Skiljanlega er það mörgum mikið áfall að heyra að ekki sé hægt að lækna krabbameinið. Það er eðlilegt að finna fyrir tilfinningum eins og depurð, kvíða og sorg. Þú gætir upplifað sorg í tengslum við hugmyndir og áform sem þú hafðir um framtíðina sem nú taka ef til vill á sig aðra mynd. Óvissan varðandi framtíðina og það sem framundan er reynist mörgum erfið viðureignar.

Hér höfum við sett saman hollráð sem hafa hjálpað fólki í svipuðum sporum að finna vonina og kljást við óvissu og ótta. Ef til vill geta einhver þeirra nýst þér.

Óttinn við að endurgreinast

Áhyggjur af því að greinast aftur með krabbamein eru oft mestar fyrsta árið eftir að krabbameinsmeðferð lýkur en yfirleitt dregur úr óttanum eftir því sem tíminn líður. Ótti og kvíði eru eðlilegur hluti af því að hafa greinst með krabbamein og hjá Krabbameinsfélaginu býðst aðstoð við að takast á við það.

Hugmyndir sem gætu hjálpað:

  • Þekktu þínar tilfinningar. Margir vilja reyna að bæla niður tilfinningar eins og ótta og kvíða. það getur hinsvegar orðið til þess að magna upp þessa líðan. Það hjálpar oft að tala við traustan við, fjölskyldumeðlim eða fagaðila.
  • Það getur hjálpað þér að átta þig á að hverju óttinn beinist helst. Til að mynda gæti það verið óttinn við að þurfa að fara aftur í gegnum krabbameinsmeðferð, óttinn við að missa stjórn á lífi þínu eða óttinn við að deyja. Mörgum finnst hjálplegt að skrifa niður hugsanir sínar og tilfinningar.
  • Vertu viðbúin/n því að óttinn gæti aukist tímabundið á ákveðnum tímum. Til dæmis þegar kemur að eftirliti eða þegar einhver annar greinist með krabbamein. Það gæti hjálpað að eiga samtal við lækninn um þennan ótta og spyrja hvaða merkjum eða einkennum þú ættir helst að vera vakandi fyrir.
  • Ekki bera áhyggjur þínar í hljóði. Það getur verið gott að tala við aðra sem hafa verið í svipuðum sporum, til dæmis með því að taka þátt í stuðningshópum. Að deila hugsunum sínum og tilfinningum með þeim sem skilja hvað þú ert að fara í gegnum getur dregið úr einmanakennd og gefið þér styrk.
  • Leitastu við að draga úr streitu. Það er hjálplegt að leita leiða til að draga úr spennu og kvíða. Það er gott að minna sig á hvað hjálpar yfirleitt betur en einnig gæti verið gott að prófa nýjar leiðir.
  • Að leitast við að lifa heilsusamlegu lífi getur hjálpað við að draga úr óttanum um að greinast aftur.

Endurhæfing

Með endurhæfingu við hæfi er hægt að draga úr mörgum aukaverkunum og bæta lífsgæði með því að huga að reglulegri hreyfingu og þjálfun. Endurhæfing ætti að hefjast um leið og greining krabbameins á sér stað og er mikilvæg í gegnum allt ferlið. Það skiptir líka miklu máli að hlúa að andlegri líðan og vera vakandi fyrir streitu, vanlíðan eða depurð.

Með aukinni þekkingu á krabbameini, bættum greiningaraðferðum og meðferðarúrræðum hafa lífshorfur krabbameinssjúklinga aukist umtalvert síðustu áratugi.

Fimm ára lífshorfur eru nú 69% hjá körlum en 68% hjá konum (2005-20014) og hafa meira en tvöfaldast frá því að skráning krabbameina hófst á Íslandi 1954 skv. upplýsingum frá Krabbameinsskránni.

Nokkrar staðreyndir:

  • Um 1.705 Íslendingar greinast árlega með krabbamein.
  • Í árslok 2019 voru á lífi um 15.900 einstaklingar sem einhvern tímann höfðu greinst með krabbamein.
  • Lífshorfur hafa batnað mikið.
  • Um 40-75% þeirra sem greinast með krabbamein telja sig þurfa á endurhæfingu að halda.
  • Endurhæfing og líkamleg þjálfun við hæfi getur dregið úr skertri starfsgetu af völdum krabbameina og meðferðar.

Meðferð við krabbameinum hefur margvísleg áhrif á heilsufar fólks og getur m.a. dregið úr líkamlegri og sálrænni getu. Með endurhæfingu við hæfi er hægt að draga úr mörgum aukaverkunum og bæta lífsgæði með því að huga að heilbrigðum lífsstíl og reglulegri hreyfingu. Grunngildin fjögur, næring, hreyfing, svefn og hugur, eiga þarna sannarlega við. 

Ráðleggingar

Samkvæmt fjölmörgum rannsóknum sem gerðar hafa verið erlendis á endurhæfingarþörf krabbameinssjúklinga kemur fram að mikilvægt er að:

  • hreyfa sig eins og geta og heilsa leyfir
  • forðast kyrrsetulíf
  • vikuleg hreyfing sé 150 mínútur af miðlungsáreynslu eða 75 mínútur af mikilli áreynslu
  • gera styrktarþjálfun tvisvar eða þrisvar í viku
  • gera liðleikaæfingar á sömu tímum og aðrar æfingar
  • fagaðilar sem vinna að endurhæfingu tileinki sér þekkingu á áhrifum og afleiðingum krabbameina og meðferðar á líðan, þrek og ástand við þjálfun
  • æfinga- og meðferðaráætlunin sé einstaklingsmiðuð

Endurhæfingaúrræði í boði

Hér má finna dæmi um þau endurhæfingaúrræði sem eru í boði.

Heildræn endurhæfing fyrir fólk með krabbamein á Landspítala

Endurhæfingarteymi fyrir fólk með krabbamein er staðsett á Landspítalanum við Hringbraut.

Markmið heildrænnar endurhæfingar fyrir fólk með krabbamein á Landspítala er að aðstoða einstaklinga við að endurheimta og viðhalda virkni, heilsu og lífsgæðum innan þeirra takmarkana sem sjúkdómur og meðferð setur.

  • Fjölfaglegt endurhæfingarteymi (staðsett á Hringbraut) sér um að skipuleggja, veita endurhæfingarþjónustu og senda tilvísanir innan og utan spítalans í samræmi við þarfir og óskir sjúklings. Lögð er áhersla á að sinna þörfum sjúklinga fyrir endurhæfingu óháð meðferð og sjúkdómsstigi, en í forgangi eru þeir sem eru með erfið og fjölþátta einkenni sem hafa mikil áhrif á daglegt líf og lífsgæði. Gerð er einstaklingshæfð markmiðssetning og áætlun um endurhæfingu með hverjum einstaklingi, sem byggist á heildrænu mati á líðan hans og þeim áskorunum sem hann þarf að takast á við í kjölfar sjúkdóms og meðferðar. Heilbrigðisstarfsmaður sendir tilvísun til endurhæfingarteymis til að óska eftir þjónustunni.  Hér má finna upplýsingar um endurhæfingarteymið á vef spítalans, þjónustuna og fræðsluefni fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur þess.
  • Hópþjálfun fyrir fólk með krabbamein og sjúkraþjálfun eftir brottnám brjósts á Landspítala, Hringbraut: Tvisvar í viku eru hóptímar í styrktar- og þolþjálfun undir handleiðslu sjúkraþjálfara, á mánudögum og föstudögum kl. 10:30-11:45. Tíu skipta kort kostar 5.895 kr. Sjúkraþjálfun - (einstaklingsmeðferð á göngudeild) er í boði vegna verkja/hreyfiskerðingar í tengslum við aðgerð á brjósta- og/eða holhandarsvæði. Kostnaður er skv. almennri verðskrá fyrir sjúkraþjálfun. Hvort tveggja er staðsett á endurhæfingardeildinni á 4. hæð á Hringbraut, s. 543 9300. Það þarf ekki beiðni, hvorki í hópþjálfunina né sjúkraþjálfunina.
  • Önnur stuðnings- og endurhæfingarþjónusta í boði á Landspítala: Upplýsingar um neðangreinda þjónustu er hægt að fá hjá hjúkrunarfræðingum og læknum og á www.landspitali.is. Oftast þarf að fá tilvísun: Félagsráðgjöf, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, kynlífsráðgjöf, líknarráðgjafateymi, næringarráðgjöf, prestar og djáknar, sálfræðiþjónusta, slökunarmeðferð, talþjálfun, verkjateymi.

Reykjalundur

Reykjalundur sinnir endurhæfingu krabbameinssjúklinga sem eru í sjúkdómshléi, taldir læknaðir eða í stöðugu ástandi. Beiðni er send frá krabbameinsendurhæfingarteymi Landspítalans og fleirum. Í boði er sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sálfræðimeðferð, talþjálfun, næringarráðgjöf, starfsendurhæfing, félagsráðgjöf, hjúkrun og læknisfræðileg meðferð, ýmis fræðsla, svo sem verkjaskóli, geðskóli, lungnaskóli og hjartafræðsla. Þar er allur kostnaður greiddur af TR. Í heilsurækt Reykjalundar er hægt að taka þátt í hópþjálfun, fá ráðgjöf og aðgang að sundlaug og tækjasal. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni www.reykjalundur.is.

Grensás - sundleikfimi

Í sundlaug Landspítalans Grensási er boðið upp á hópþjálfun í laug tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum kl. 14.30. Upplýsingar í síma 543 9319.

HNLFÍ

Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) býður upp á endurhæfingu sem er sérhæfð fyrir krabbameinssjúklinga. Þar er í boði einstaklingsmiðuð þjálfun þar sem sett er upp áætlun um hreyfingu á meðan á dvöl stendur. Dvölin stendur yfirleitt í fjórar vikur en möguleiki er á endurkomu í tvær vikur til viðbótar innan árs frá meðferð.

Í boði er vatnsleikfimi, æfingar í tækjasal, göngur, heilsuböð og slökun. Læknir metur þörfina fyrir sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálastungur, vaxmeðferð eða leirmeðferð. Í boði eru stuðningsviðtöl hjá sálfræðingi, hjúkrunarfræðingi og næringarráðgjafa eftir þörfum. Sumir sjúkra- eða styrktarsjóðir stéttarfélaga greiða styrk vegnar dvalar á NLFÍ. Nánari upplýsingar eru á vefsíðum www.hnlfi.is.

Ljósið

Ljósið er endurhæfingar‐ og stuðningsmiðstöð fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að þjónustuþegar fái þverfaglega endurhæfingu og stuðning hjá sérhæfðum fagaðilum. Þverfaglegt teymi sérfræðinga starfar í Ljósinu.

Teymið samanstendur af iðjuþjálfum, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðingi, sálfræðingi, næringarráðgjafa, markþjálfa og íþróttafræðingi. Auk þess starfar þar fleira starfsfólk með reynslu í handverki og sköpun. Fjöldi verktaka kemur að sérverkefnum. Þegar einstaklingur kemur í Ljósið fær hann fyrsta viðtal við iðju‐ og sjúkraþjálfara sem eru tengiliðir allt endurhæfingarferlið. Þar er gerð einstaklingsmiðuð endurhæfingaráætlun sem miðar að því að byggja viðkomandi upp andlega, líkamlega og félagslega eftir veikindi og efla þar með lífsgæðin.

Hægt er að fá viðtöl við alla í grunnteyminu eftir því sem við á hverju sinni. Boðið er upp á einkatíma í djúpslökun, hugræna atferlismeðferð og einnig er boðið upp á jafningjastuðning. Fjölmörg námskeið og fræðslufundir eru í boði í Ljósinu. Má þar m.a. nefna námskeið fyrir nýgreindar konur, heilsueflingarnámskeið, aftur af stað til vinnu eða náms, aðstandendanámskeið fyrir börn, fræðslufundi fyrir karla, matreiðslunámskeið, snyrtinámskeið og hugleiðslunámskeið. Handverk er hluti af endurhæfingunni. Sem dæmi um handverk má nefna bútasaum, leirlist, listmálun, trétálgun, fluguhnýtingar, glerlist, prjónakaffi, ullarþæfingu, saumagallerí, skartgripagerð og postulínsmálun. Nánari upplýsingar og stundatöflu eru hægt að nálgast á www.ljosid.is.

Ráð­gjöf og stuðn­ing­ur þér að kostn­að­ar­lausu

Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.

Við­burð­ir og nám­skeið