Beint í efni

Eft­ir með­ferð

Krabbameinsmeðferð reynir á, hvort sem það er skurðaðgerð, lyfjameðferð, geislameðferð eða aðrar meðferðartegundir og oft þarf að beita fleiri en einni tegund meðferðar.

Þegar krabbameinsmeðferð lýkur getur þú upplifað margar og jafnvel mótsagnakenndar tilfinningar. Sumir finna fyrir gleði og létti yfir því að meðferðin sé búin, á meðan aðrir upplifa óöryggi og áhyggjur af framtíðinni. Sumir finna fyrir tómleika, og upplifa sig jafnvel í lausu lofti, án utanumhalds og stuðnings frá meðferðarteyminu á spítalanum. Allt eru þetta eðlilegar tilfinningar.  

Eftir að krabbameinsmeðferð lýkur getur tekið tíma að ná utan um allt sem hefur gerst og vinna úr því. Það getur tekið tíma að finna aftur taktinn í lífinu og horfast í augu við að einhverjir þættir lífsins séu öðruvísi en þeir voru fyrir krabbameinsgreininguna og meðferðina. Sumir komast fljótt í fyrri rútínu en aðrir upplifa líkamlegar og andlegar breytingar sem krefjast meiri tíma og aðlögunar. Þreyta, svefnleysi og minnisleysi eru dæmi um einkenni sem margir upplifa eftir meðferð, en þessi einkenni minnka oft með tímanum. Mikilvægt er að sýna sjálfum sér mildi og þolinmæði. 

Góð ráð 

  • Gefðu þér nægan tíma til að hvílast og jafna þig. 
  • Talaðu um tilfinningar þínar, þú ert ekki ein/n. 
  • Reyndu að fara út úr húsi á hverjum degi. 
  • Forgangsraðaðu reglulegri hreyfingu og næringarríku matarræði.  
  • Leyfðu fjölskyldu og vinum að hjálpa þér. 
  • Ef þú ert að snúa aftur til vinnu, byrjaðu hægt og auktu vinnustundirnar smám saman. 
  • Leitaðu til annarra sem hafa gengið í gegnum svipaða reynslu, til dæmis í stuðningshópi. 

Endurhæfing er mikilvægur þáttur í og eftir krabbameinsmeðferð en markmið endurhæfingar er að bæta lífsgæði með því að efla líkamlega, andlega og félagslega virkni og draga þannig úr aukaverkunum meðferðar.  Hér má lesa meira um endurgæfingu og nokkur af þeim endurhæfingarúrræðum sem eru í boði.

Ef aukaverkanir krabbameinsmeðferðar eru til staðar löngu eftir meðferðarlok eða gera fyrst vart við sig mánuðum eða jafnvel árum eftir að meðferð lýkur er talað um langvinnar eða síðbúnar aukaverkanir. Hér má lesa meira um langvinnar og síðbúnar aukaverkanir eftir krabbameinsmeðferð. 

Að lifa með ólæknandi krabbameini

Lífshorfur þeirra sem greinast með ólæknandi krabbamein hafa aldrei verið betri en í dag, þökk sé framþróun í meðhöndlun og greiningu krabbameina.

Oft er hægt að halda sjúkdómnum lengi niðri. Skiljanlega er það mörgum mikið áfall að heyra að ekki sé hægt að lækna krabbameinið. Það er eðlilegt að finna fyrir tilfinningum eins og depurð, kvíða og sorg. Þú gætir upplifað sorg í tengslum við hugmyndir og áform sem þú hafðir um framtíðina sem nú taka ef til vill á sig aðra mynd. Óvissan varðandi framtíðina og það sem framundan er reynist mörgum erfið viðureignar.

Hér er að finna hollráð sem hafa hjálpað fólki sem er með ólæknandi krabbamein að finna vonina og kljást við óvissu og ótta.

Ráð­gjöf og stuðn­ing­ur þér að kostn­að­ar­lausu

Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.

Við­burð­ir og nám­skeið