Virkjun ónæmiskerfisins gegn krabbameini
Gunnhildur Ásta Traustadóttir rannsakar þróun nýrra sameindalyfja sem hafa möguleika á að gagnast í baráttunni gegn ýmsum gerðum krabbameina.
Rannsóknin miðar að því að prófa nýja gerð sameindalyfja sem bindast annars vegar sértækt við HER2 viðtakann á krabbameinsfrumum og hins vegar við frumur ónæmiskerfisins.
Í rannsókninni ætlum við að setja upp þrívíð samræktunar-frumumódel með brjóstakrabbameinsfrumum og ónæmisfrumum og meta getu nýrrar gerðar sameindalyfja til að virkja ónæmisfrumurnar gegn krabbameinsfrumunum. Þessi nýju sameindalyf, sem enn eru í þróun, bindast annars vegar sértækt við krabbameinsfrumurnar og hins vegar við frumur ónæmiskerfisins og hafa því möguleika á sértækri virkjun ónæmiskerfisins gegn krabbameinsfrumunum.
Mikilvægur hlekkur
Rannsóknin miðar að því að prófa nýja gerð sameindalyfja sem bindast annars vegar sértækt við HER2 viðtakann á krabbameinsfrumum og hins vegar við frumur ónæmiskerfisins og hafa því möguleika á sértækri virkjun ónæmiskerfisins gegn krabbameinsfrumunum. Sýnt hefur verið að þessi gerð sameindalyfja virkjar ónæmiskerfið gegn mergæxlisfrumum en ekki hefur áður verið sýnt að þau virka í frumumódelum sem líkja eftir krabbameinsæxlum.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru mikilvægur hlekkur í þróun þessara sameindalyfja sem hafa möguleika á að gagnast í baráttunni gegn ýmsum gerðum krabbameina.
Rannsóknin, Virkjun ónæmiskerfisins gegn krabbameini, hlaut 2,2 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði árið 2024.