Varðveisla frjósemi hjá stúlkum
Ragnar Bjarnason rannsakar varðveislu frjósemi hjá stúlkum sem fá krabbameinsmeðferð á barns- eða unglingsaldri.
Verkefnið hefur það markmið að setja upp verklagsreglur varðandi mögulega varðveislu á frjósemi stúlkna sem þurfa að gangast undir krabbameinsmeðferð sem getur haft skaðleg áhrif á frjósemi, þ.e. valdið ófrjósemi, stytt frjósemistíma eða haft áhrif á getu til að verða barnshafandi eða ganga með barn. Hér á landi hefur fram til þessa ekki verið boðið upp öll þau inngrip sem hægt væri að horfa til þegar stúlkur gangast undir meðferð sem getur haft þessi áhrif, svo sem ekki eggheimtu né frystingu á eggjastokksvef.
Væntanlegur ávinningur þessa verkefnis er að með innleiðingu á nýju verklagi sé tryggt að stúlkur sem gangast undir krabbameinsmeðferð sem getur valdið ófrjósemi, fái ef mögulegt er, tækifæri til að verða mæður síðar á lífsleiðinni. Aukaávinningur er að verklagið mætti síðan að einhverju leyti yfirfæra fyrir varðveislu frjósemi fullorðinna kvenna sem fá krabbameinsmeðferð á barnaeignaaldri.
Rannsóknin Varðveisla frjósemi hjá stúlkum sem fá krabbameinsmeðferð á barns- eða unglingsaldri hlaut 16.000.000 kr. styrk úr sérstakri stærri úthlutun Vísindasjóðs árið 2024.