Rannsókn á tengslum erfðabreytileika
Sigurdís Haraldsdóttir rannsakar tengsl erfðabreytileika við tilkomu aukaverkana af völdum 5-FU og capecitabine lyfjameðferðar.
5-fluorouracil og capecitabine eru krabbameinslyf sem eru notuð til meðferðar við ýmsum tegundum krabbameina, einkum í ristli, maga, brjóstum og á höfuð- og hálssvæði. Þessi lyf hafa verið notuð í um 60 ár og þolast oftast vel. Hins vegar er helsti annmarki þessara lyfja að einstaklingar sem bera ákveðna erfðabreytileika í DPYD geni hafa skerta getu til að brjóta lyfin niður og eru því í aukinni áhættu á ýmsum alvarlegum aukaverkunum, eins og alvarlegum niðurgangi, uppköstum, bólgum í munni og meltingarvegi og alvarlegum einkennum frá hjarta sem geta leitt til dauða. Í þessari rannsókn er markmiðið að kanna algengi skaðlegra erfðabreytileika í DPYD geninu og öðrum genum sem koma að niðurbroti 5-fluorouracil og capecitabine lyfja, rannsaka tengsl þeirra við alvarlegar aukaverkanir af völdum þessara lyfja og að lokum meta nýtingu og ávinning skimunar fyrir skaðlegum DPYD erfðabreytileikum sem hófst á Landspítalanum vorið 2021.
Gildi rannsóknarinnar
Ýtarleg rannsókn á DPYD erfðabreytileikum í íslensku þýði mun auka skilning okkar á því hvernig erfðabreytileikar hafa áhrif á umbrot og tilkomu aukaverkana af völdum 5-FU og capecitabine lyfja. Einnig verður unnt að greina hvort aðrir skaðlegir erfðabreytileikar í genum sem koma að umbroti 5-FU og capecitabine lyfja finnast í íslensku þýði. Greining sértækra skaðlegra erfðabreytileika í íslensku þjóðinni gæti mögulega leitt til markvissari skimunarstefnu með því markmiði að greina einstaklinga sem eru í aukinni áhættu á alvarlegum aukaverkunum áður en lyfjameðferð með 5-FU og capecitabine hefst. Þannig mætti hindra tilkomu alvarlegra aukaverkana með skammtaminnkun áður en meðferð hefst. Helsti heilsufarslegi ávinningur rannsóknarinnar felst í því að fyrirbyggja lífshættulegar aukaverkanir 5-FU og capecitabine lyfja og stuðla þannig að auknu öryggi krabbameinslyfjameðferðar. Einnig má fækka ónauðsynlegum spítalainnlögnum vegna aukaverkana hjá einstaklingum með erfðafræðilega útsetningu fyrir alvarlegum aukaverkun með skammtaminnkun fyrir meðferðarupphaf.
Rannsóknin Tengsl erfðabreytileika við tilkomu aukaverkana af völdum 5-FU og capecitabine lyfjameðferðar hlaut 2.900.000 kr. styrk úr Vísindasjóði árið 2024.