Beint í efni

Kanna al­gengi og klín­ískt mik­il­vægi for­stigs mergæxl­is

Sigurður Yngvi Kristinsson rannsakar einkennavaldandi einstofna mótefnahækkun: Faraldsfræði og þróun greiningaraðferða.

Einkennavaldandi einstofna mótefnahækkun er forstig mergæxlis, sem er krabbamein í beinmerg. Markmið þessa verkefnis er að kanna algengi og klínískt mikilvægi þessa forstigs. Ólíkt einkennalausu forstigi (góðkynja einstofna mótefnahækkun), er einkennavaldandi einstofna mótefnahækkun tengd nýrnasjúkdóm, úttaugameini, og aukinni tíðni beinbrota og sýkinga. Rannsóknin nýtir gögn úr rannsókninni Blóðskimun til bjargar sem hefur skimað yfir helming íslensku þjóðarinnar 40 ára og eldri fyrir forstigum mergæxlis. Markmið okkar er að læra meira um einkennavaldandi einstofna mótefnahækkun með von um að hægt sé að bæta heilsu, horfur, og lífsgæði fólks með forstig mergæxlis

Möguleg áhrif þessarar rannsóknar eru mikilvæg og fjölþætt. Með því að kortleggja faraldsfræði og klíníska þýðingu einkennavaldandi einstofna mótefnahækkun (monoclonal gammopathy of clinical significance; MGCS) innan stórs þýðis mun rannsóknin auka skilning okkar á MGCS, bæta greiningar og gera meðferð við sjúkdóminum markvissari og árangursríkari. Að lokum gætu niðurstöðurnar aukið lífsgæði sjúklinga verulega, dregið úr heilbrigðiskostnaði, og bætt klínískar leiðbeiningar.

Rannsóknin Einkennavaldandi einstofna mótefnahækkun: Faraldsfræði og þróun greiningaraðferða hlaut 10.000.000 kr. styrk úr Vísindasjóði árið 2024.