Beint í efni

Hafa skiman­ir með ristil­spegl­un­um skilað ár­angri?

Helgi Birgisson rannsakar áhrif ristilspeglana á greiningu sepa og krabbameina i ristli og endaþarmi.

Krabbamein í ristli og endaþarmi er annað algengasta krabbamein í körlum og þriðja algengasta í konum á Íslandi. Þrátt fyrir bætta meðferð og horfur mun um þriðjungur látast 5 árum eftir greiningu. Skimun fyrir ristil og endaþarmskrabbameini getur fækkað þessum dauðsföllum með því að greina meinið á forstigi (separ) eða á lægri stigum. Nú, þegar hefja á lýðgrundaða skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi, er mikilvægt að skoða hversu mikið hefur verið skimað með ristilspeglunum hingað til og hvort skimanirnar hafi skilað þeim árangri sem vænst var eftir og þá sérstaklega með tilliti til sepagreininga og færri dauðsfalla af völdum krabbameinsins í þeim sem farið hafa í ristilspeglun. Sepa- og ristilspeglunarupplýsingar munu nýtast Samhæfingarstöð Krabbameinsskimana við að byggja upp sepa- og skimunarskrá og þar með til að sinna betur lýðgrundaðri skimun sem fyrirhugu er fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi.

Gildi rannsóknarinnar

Með þessari rannsókn verður hægt að kortleggja hversu stórt hlutfall íslensku þjóðarinnar hefur farið í ristilspeglun og hvaða áhrif tækifærisskimanir með ristilspeglun hafa haft með tilliti til greiningu sepa og krabbameina. Skoðað verður gæði tækifærisskimana með ristilspeglun með því að skoða sepagreiningarhlutfall og hvort speglunin hefur skilað árangri með lækkuðu hlutfalli krabbameina í ristili og endaþarmi hjá þeim sem ristilspeglaðir voru. Rannsókn þessi mun gagnast samhæfingarstöð krabbameinsskimana og þar með allri þjóðinni við innleiðingu skimana fyrir krabbameinum í ristli og endþarmi á Íslandi.

Rannsóknin Áhrif ristilspeglana á greiningu sepa og krabbameina i ristli og endaþarmi hlaut 4.000.000 kr. styrk úr Vísindasjóði árið 2024.