Beint í efni
Úthlutun Vísindasjóðs 2024

Met­út­hlut­un úr Vís­inda­sjóði Krabba­meins­fé­lags­ins

Það var happadrjúgt hádegi þann 30. maí þegar vísinda- og heilbrigðisstarfsfólki voru færðar 130,8 milljónir í styrki til krabbameinsrannsókna auk verkefnis til að vernda frjósemi stúlkna sem greinast með krabbamein. Úthlutað var styrkjum úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins og Rynkebysjóði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

Styrkir eru forsendur betri árangurs í glímunni við krabbamein

Úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins var styrkjum úthlutað í áttunda sinn. Úthlutunin í ár var sú langstærsta til þessa, 106,9 milljónir króna. Mikil gleði lá í loftinu enda er styrkveiting úr sjóðnum í mörgum tilvikum forsenda þess að hægt sé að hefja eða halda áfram vinnu sem ætlað er að skapa meiri árangur í glímunni við krabbamein. 

Allt starf Krabbameinsfélagsins miðar að því að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa og að lífsgæði þeirra og aðstandenda þeirra séu sem best. Til að ná árangri í þessum metnaðarfullu verkefnum beitir félagið margs konar aðferðum. Ein þeirra er að styðja myndarlega við íslenskar krabbameinsrannsóknir í þeirri trú að vísindin vísi veginn til framfara í greiningu, meðferð krabbameina og þegar kemur að lífsgæðum sjúklinga. 

Tvískipt úthlutun – áhrif merkrar konu

Úthlutunin úr Vísindsjóði Krabbameinsfélagsins var tvískipt í ár. Annars vegar var 66,9 milljónum króna úthlutað í hefðbundinni úthlutun með átta styrkjum til nýrra rannsókna og fjögurra til rannsókna sem áður höfðu hlotið styrki. Hins vegar var til viðbótar úthlutað úr sérstakri stærri úthlutun til verkefna sem snúa að börnum, rannsókna og umönnunar. Í þeirri úthlutun var 40 milljónum króna úthlutað til þriggja verkefna. 

Sú stórmerka kona, Kristín Björnsdóttir, fyrrverandi starfsmaður Sameinuðu þjóðanna ánafnaði Krabbameinsfélaginu erfðagjöf sem rann inn í Vísindsjóðinn við stofnun hans. Vilji Kristínar var að með hennar gjöf væri hægt að styðja við rannsóknir á krabbameinum hjá börnum og umönnun barna með krabbamein. Vegna þess ber Vísindasjóðnum samkvæmt skipulagsskrá að styrkja slík verkefni og þótti ástæða til að gera þeim sérstaklega hátt undir höfði í ár. 

Hjólað fyrir vísindin - Rynkebysjóður Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna

Að auki var í ár í annað sinn úthlutað úr Rynkebysjóði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna sem er tilkomin vegna söfnunar Rynkeby-hjólaliðsins. Þrjár rannsóknir fengu nú styrki úr sjóðnum, alls 23,9 milljónir króna. 

Við úthlutunina gerðu Magnús Karl Magnússon, formaður stjórnar Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins, og Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, mikilvægi sjóðsins að umtalsefni en vísindamenn hafa lýst stofnun sjóðsins sem byltingu í krabbameinsrannsóknum hér á landi.

Styrkveitingar úr sjóðnum frá upphafi

Frá upphafi hefur Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins veitt 98 styrki úr sjóðnum, til 58 rannsókna. Heildarupphæð styrkjanna nemur 562,4 milljónum króna.


Styrkþegar Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins 2024:

·       Berglind Eva Benediktsdóttir hlýtur 5.300.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Sækni og formúlering sérhannaðra utanfrumubóla í EGFR1 jákvæðar brjóstakrabbameinsfrumur. 

·       Gunnhildur Ásta Traustadóttir hlýtur 2.200.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Virkjun ónæmiskerfisins gegn krabbameini.          

·       Heiðdís B Valdimarsdóttir hlýtur 5.100.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Áhrif örvandi dægurbundis ljóss á dægursveiflur, bólgumyndun og sjúkdómsbyrði meðal nýgreindra brjóstakrabbameinssjúklinga.              

·       Helgi Birgisson hlýtur 4.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Áhrif ristilspeglana á greiningu sepa og krabbameina i ristli og endaþarmi.           

·       Jens G. Hjörleifsson hlýtur 7.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Þróun á hrifilnæmum sykurrofshindrum gegn krabbameini.                

·       Krishna Kumar Damodaran hlýtur 2.900.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Þróun lífrænna rhodium (III) sambanda sem krabbameinslyf með aukið frumuaðgengi byggt á leysanleika og amínósýruferjum.  

·       Kristinn Ragnar Óskarsson hlýtur 8.300.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Áhrif krabbameinsvaldandi stökkbreytinga á byggingu, virkni og hreyfanleika umritunarþáttarins FOXA1.              

·       Margrét Helga Ögmundsdóttir  hlýtur 10.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Hlutverk ATG7 í samspili uppbyggingar og niðurbrots í krabbameinsfrumum.   

·       Sigurdís Haraldsdóttir hlýtur 2.900.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Tengsl erfðabreytileika við tilkomu aukaverkana af völdum 5-FU og capecitabine lyfjameðferðar. 

·       Sigurður Yngvi Kristinsson hlýtur 10.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Einkennavaldandi einstofna mótefnahækkun: Faraldsfræði og þróun greiningaraðferða.

·       Stefán Sigurðsson hlýtur 6.400.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Slæmar horfur estrógen jákvæðra BRCA2 arfbera með brjóstakrabbamein.    

·       Tómas Guðbjartsson hlýtur 2.800.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Nýjungar í skurðmeðferð lungnakrabbameins á Íslandi. 

Styrkþegar Vísindasjóðs úr sérstakri stærri úthlutun til rannsókna á krabbameinum hjá börnum og umönnunar barna með krabbamein:

·       Ólafur Gísli Jónsson hlýtur 16.000.000 kr. styrk fyrir: Gagnagrunnsrannsókn á börnum á Íslandi sem greinst hafa með krabbamein.  

·       Ragnar Bjarnason hlýtur 16.000.000 kr. styrk fyrir: Varðveisla frjósemi hjá stúlkum sem fá krabbameinsmeðferð á barns- eða unglingsaldri.                  

·       Valtýr Stefánsson Thors hlýtur 8.000.000 kr. styrk fyrir: Eru tengsl milli truflunar á örveruflóru barna og alvarlegra sýkinga á meðan krabbameinslyfjameðferð stendur?                                                             

Styrkþegar Rynkeby-sjóðs Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna:

·       Ásgeir Haraldsson hlýtur 5.900.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Langtímaáhrif krabbameinsmeðferðar í æsku á ónæmiskerfið og möguleg frávik í ónæmiskerfinu fyrir greiningu.

·       Linda Viðarsdóttir hlýtur 9.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Hlutverk FGD5-AS1 í beinsarkmeinum.             

·      Sara Sigurbjörnsdóttir hlýtur 9.000.000 kr. Styrk fyrir rannsóknina: Óhefðbundið hedgehog boðferli í Ewing sarkmeini í börnum.       

Almenningur og fyrirtæki í landinu gera úthlutunina mögulega 

Vísindasjóðurinn er fjármagnaður með styrkjum frá almenningi og fyrirtækjum í landinu og alltaf þarf að hafa hugfast að sjóðurinn nái þeim markmiðum sem sett voru í upphafi, að hann styrki rannsóknir tengdar forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga og rannsóknir tengdar börnum og fullorðnum. 

Erfðagjafir framsýnna kvenna hafa skipt sköpum

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands var stofnaður 16. desember 2015 til að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, meðal annars með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. Stofnfé sjóðsins var 254,6 milljónir króna, að mestum hluta frá Krabbameinsfélagi Íslands (150 milljónir). Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins lögðu Vísindasjóðnum til 14,9 milljónir króna við stofnun hans. Eftir stofnun sjóðsins hefur Krabbameinsfélagið lagt sjóðnum til 279 milljónir með öflugum stuðningi frá almenningi og fyrirtækjum í landinu. 

Ýmis fyrirtæki í landinu hafa styrkt sjóðinn myndarlega í gegnum tíðina en stærstur er hluti Bláa lónsins. Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins sem styrkti sjóðinn um 10 milljónir við stofnun hans lagði sjóðnum til 5 milljónir til viðbótar á síðasta ári. Sjóðurinn hefur einnig notið styrkja frá einstaklingum.

Áhrif framsýnna kvenna sem hafa viljað styrkja krabbameinsrannsóknir eftir sinn dag eru mikil. Við stofnun sjóðsins runnu inn í hann tveir minningarsjóðir, þeirra Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson (23,6 milljónir króna) og Kristínar Björnsdóttur (66,1 milljón króna). Þriðja konan, Guðlaug Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur sem lést árið 2017 styrkti svo sjóðinn um rúmar 9 milljónir með erfðagjöf. 

Áskoranir tengdar fjölgun krabbameinstilvika og fjölgun lifenda hér á landi á næstu árum eru mjög stórar og afar brýnt að möguleikar til vísindarannsókna séu góðir. Að almannaheillafélag geti rekið svo myndarlegan sjóð er langt frá því að vera sjálfsagt og til að svo megi verða áfram verða allir að leggjast á eitt.