Áhrif örvandi dægurbundis ljóss
Heiðdís B. Valdimarsdóttir rannsakar áhrif örvandi dægurbundis ljóss á dægursveiflur, bólgumyndun og sjúkdómsbyrði meðal nýgreindra brjóstakrabbameinssjúklinga.
Skurðaðgerð við brjóstakrabbameini getur valdið röskun í náttúrulegum dægursveiflum líkamans og þar með haft neikvæð áhrif á líðan sjúklinga og lífsgæði þeirra. Dægursveifluröskun hefur ýmis áhrif á líkamsstarfssemina og getur m.a. raskað hormónaflæði og aukið bólgumyndun. Rannsóknir hafa sýnt að meðferð með sérstöku ljósi, sem hefur örvandi áhrif á dægursveiflur, getur endurstillt dægursveiflur meðal sjúklinga og þar með dregið úr neikvæðum áhrifum skurðaðgerðar. Óljóst er hinsvegar hver líffræðilega skýringin er á þessum jákvæðu áhrifum dægursveiflu-örvandi ljóss. Í þessari rannsókn verður kannað hvort dægursveiflu-örvandi ljós geti endurstillt raskaðar dægursveiflur meðal sjúklinga sem hafa farið í skurðaðgerð við brjóstakrabbameini og þar með hvort ljósið geti leiðrétt hormónaflæði og dregið úr bólgumyndun. Þessi rannsókn er sú fyrsta sinnar tegundar sem kannar hvað liggur að baki jákvæðum áhrifum dægursveiflu-örvandi ljóss á líðan og lífsgæði krabbameinssjúklinga. Niðurstöðurnar geta nýst við hönnun og útfærslu á notkun dægursveiflu-örvandi ljóss í heilbrigðiskerfinu og haft mikla þýðingu fyrir lýðheilsu.
Rannsóknin Áhrif örvandi dægurbundis ljóss á dægursveiflur, bólgumyndun og sjúkdómsbyrði meðal nýgreindra brjóstakrabbameinssjúklinga hlaut 5,1 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði árið 2024.