Úthlutanir Vísindasjóðs 2023
Það ríkti hátíðarstemning í Skógarhlíðinni þegar úthlutað var í sjöunda sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins í gær, 21. júní. Tólf rannsóknir voru styrktar um 71,1 milljón króna. Fjórar nýjar rannsóknir hlutu styrki og átta rannsóknir hlutu framhaldsstyrki en styrkumsóknir voru alls 28.
Í ár var auk þess í fyrsta sinn úthlutað styrkjum úr Rynkebysjóði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Tvær rannsóknir voru styrktar samtals um 12,9 milljónir króna.
Frá upphafi hafa verið veittir 83 styrkir úr sjóðnum, til 47 rannsókna. Heildarupphæð styrkjanna nemur 455,5 milljónum króna.
Við úthlutunina gerðu Ragnheiður Haraldsdóttir, formaður stjórnar Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins, og Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, mikilvægi sjóðsins að umtalsefni. Vísindamenn hafa lýst stofnun sjóðsins sem byltingu í krabbameinsrannsóknum hér á landi.
Sjóðurinn er fjármagnaður með styrkjum frá almenningi og fyrirtækjum í landinu og alltaf þarf að hafa hugfast að sjóðurinn nái þeim markmiðum sem sett voru í upphafi, að hann styrki rannsóknir tengdar forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga og rannsóknir tengdar börnum og fullorðnum. Áskoranir tengdar fjölgun krabbameinstilvika og fjölgun lifenda hér á landi á næstu árum eru mjög stórar og afar brýnt að möguleikar til vísindarannsókna séu góðir. Að almannaheillafélag geti rekið svo myndarlegan sjóð er langt frá því að vera sjálfsagt og til að svo megi verða áfram verða allir að leggjast á eitt.
Ragnheiður Haraldsdóttir, formaður stjórnar Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins, veitti styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins.
Styrkþegar Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins 2023 eru:
- Berglind Eva Benediktsdóttir hlýtur 4.800.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Sækni sérhannaðra utanfrumubóla í EGFR-jákvæðar brjóstakrabbameinsfrumur.
- Berglind Ósk Einarsdóttir hlýtur 8.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Hlutverk MITF
í hindrun ónæmissvars sortuæxla. - Guðrún Valdimarsdóttir hlýtur 6.000.0000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Æxlingar úr brjóstakrabbameinssjúklingum meðhöndlaðir með æðaþels-sértækum sameindalyfjum.
- Gunnhildur Ásta Traustadóttir hlýtur 2.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Mat á áhrifum sértækrar peptíð-ferju á krabbameinsfrumur í þrívíðri rækt.
- Jens G. Hjörleifsson hlýtur 5.500.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Þróun á hrifilnæmum sykurrofshindrum gegn krabbameini.
- Margrét Helga Ögmundsdóttir hlýtur 8.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Hlutverk ATG7 í samspili uppbyggingar og niðurbrots í krabbameinsfrumum.
- Nanna Friðriksdóttir hlýtur 2.400.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Forprófun á íslenskri þýðingu spurningabanka um aukaverkanir og einkenni hjá einstaklingum með krabbamein (NCI PRO-CTCAE).
- Pétur Orri Heiðarsson hlýtur 7.900.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Hlutverk óreiðusvæða í starfsemi MITF.
- Sigurður Yngvi Kristinsson hlýtur 7.800.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Klínískt notagildi frumu-flæðisjárrannsókna í forstigum mergæxlis og áhrif nærumhverfis mergæxlisfrumna á sjúkdómsframvindu.
- Stefán Sigurðsson hlýtur 8.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Hlutverk MITF í að viðhalda stöðugleika erfðaefnisins.
- Tómas Guðbjartsson hlýtur 2.800.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Nýjungar í skurðmeðferð lungnakrabbameina.
- Þórhildur Halldórsdóttir hlýtur 7.900.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Seinkun aldursklukkunnar.
Rósa Guðbjartsdóttir, formaður Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, afhenti styrki úr Rynkebysjóðnum.
Styrkþegar úr Rynkebysjóði Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna 2023 eru:
- Linda Viðarsdóttir hlaut 10.000.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Hlutverk FGD5-AS1 í beinsarkmeinum.
- Ragnar G. Bjarnason hlaut 2.916.000 kr. styrk fyrir rannsóknina: Síðbúnar afleiðingar krabbameina í æsku: Heilsufar, lífsgæði og hjarta- og efnaskiptatengdir áhættuþættir á fullorðinsaldri.
Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands var stofnaður 16. desember 2015 til að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, m.a. með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. Stofnfé sjóðsins var 254,6 milljónir króna, að mestum hluta frá Krabbameinsfélagi Íslands (150 milljónir) auk tveggja minningarsjóða, Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson (23,6 milljónir) annars vegar og Kristínar Björnsdóttur (66,1 milljón) hins vegar. Aðildarfélög Krabbameinsfélagsins lögðu Vísindasjóðnum til 14,9 milljónir við stofnun hans. Eftir stofnun sjóðsins hefur Krabbameinsfélagið lagt sjóðnum til 229 milljónir með öflugum stuðningi frá almenningi og fyrirtækjum í landinu, auk þess sem fyrirtæki og einstaklingar hafa styrkt sjóðinn sérstaklega.
- Nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna hér.