Beint í efni

Fram­færsla

Réttindi til framfærslu skiptast í afmörkuð skref og mikilvægt er að huga að næstu skrefum með góðum fyrirvara því að umsóknarferli geta tekið vikur eða mánuði. 

Fyrir einstaklinga sem eru á vinnumarkaði eru dæmigerð skref í stuttu máli þessi (sjá nánari útskýringar neðar):

  1. Veikindaréttur, greiddur af vinnuveitanda.
  2. Sjúkradagpeningar, greiddir samhliða úr sjúkrasjóði stéttarfélags annars vegar og af Sjúkratryggingum Íslands hins vegar.
  3. Endurhæfingarlífeyrir, greiddur af Tryggingastofnun ríkisins eða tímabundinn örorkulífeyrir, greiddur af lífeyrissjóði.
  4. Örorkulífeyrir, greiddur af lífeyrissjóði og/eða Tryggingastofnun ríkisins.

Tæma þarf réttindi í hverju skrefi fyrir sig áður en farið er í næsta.

Fyrsta skref - veikindaréttur

Það er misjafnt hvaða aukaverkanir fylgja sjúkdómnum og meðferð við honum og þar með hversu mikið eða lengi fólk þarf að vera frá vinnu. Sumir kjósa að halda áfram sinni vinnu eftir því sem heilsan leyfir. Fyrir flesta er þó nægt verkefni að takast á við krabbameinsmeðferð, enda mikilvægt að hlúa vel að sér í þeim aðstæðum, og þurfa því að vera frá vinnu í styttri eða lengri tíma.

Fólk stendur misjafnlega vel að vígi hvað áunnin réttindi varðar og það fyrsta sem þarf að gera er að tala við yfirmann eða launafulltrúa og kanna hve langur veikindaréttur er á vinnustaðnum. Áunnin réttindi til launa í veikindum miðast oftast við kjarasamninga og hve lengi viðkomandi hefur unnið á sama vinnustað eða í sambærilegum störfum.

Áður en veikindaréttur þinn klárast þarft þú að huga að næsta skrefi.

Annað skref – sjúkradagpeningar

Ef veikindaréttur á vinnustað er fullnýttur og viðkomandi ekki vinnufær er næsta skref að sækja um sjúkradagpeninga. 

Yfirleitt eru sjúkradagpeningar greiddir í samspili:

a) Sjúkradagpeningar úr sjúkrasjóði frá viðkomandi stéttarfélagi. Sjúkradagpeningar eru yfirleitt um 80% af þeim launum sem viðkomandi hafði frá sínum launagreiðanda. Það er þó ekki algilt. Það er misjafnt hve lengi stéttarfélögin greiða úr sjúkrasjóði og því er best að hafa samband við stéttarfélag og fá upplýsingar um rétt sinn, hvernig sótt er um og hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn.

b) Sjúkradagpeningar hjá Sjúkratryggingum Íslands, sem greiddir eru samhliða sjúkradagpeningum frá stéttarfélagi. Sjúkradagpeninga má greiða í allt að 52 vikur á hverjum 24 mánuðum. Nánari upplýsingar og umsókn er að finna á Ísland.is.

Athugaðu að þetta eru aðskilin umsóknarferli og best að hefja þau samhliða meðan veikindaréttur er virkur.

Áður en réttur þinn til sjúkradagpeninga klárast þarft þú að huga að næsta skrefi.

Þriðja skref – endurhæfingarlífeyrir

Sé réttur til sjúkradagpeninga fullnýttur og viðkomandi ekki vinnufær en í endurhæfingu til að komast aftur út á vinnumarkað er næsta skref að sækja um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Í einhverjum tilvikum er líka til staðar réttur hjá lífeyrissjóði til tímabundins örorkulífeyris.

Hér er einnig um að ræða aðskildar umsóknir:

a) Endurhæfingarlífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins. Meginskilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris er að umsækjandi sé óvinnufær vegna sjúkdóma og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Þegar einstaklingur hefur fengið endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði er heimilt að framlengja greiðslutímabilið um allt að 24 mánuði til viðbótar, þannig að greiðsla sé að hámarki í 60 mánuði, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Nánari upplýsingar um endurhæfingarlífeyri og umsóknarferlið.

b) Tímabundinn örorkulífeyrir frá lífeyrissjóði. Í einhverjum tilvikum getur réttur til tímabundins örorkulífeyris verið til staðar hjá þeim lífeyrissjóði sem greitt hefur verið í. Örorkulífeyrir frá viðkomandi lífeyrissjóði getur jafnvel verið greiddur samhliða endurhæfingarlífeyri, eða komið í stað hans. Best er að hafa samband við þinn lífeyrissjóð og fá upplýsingar um þinn rétt, hvar hægt er að nálgast umsókn og hvaða gögn þurfa að fylgja.

Við vekjum athygli á lífeyrisgáttinni sem hjálpar þér að fá yfirsýn yfir réttindi þín. Þar getur þú séð öll þau réttindi sem þú hefur unnið þér inn á starfsævinni (á eingöngu við um samtryggingarsjóði, ekki séreignarsjóði).

Áður en réttur þinn til endurhæfingarlífeyris klárast þarft þú að huga að næsta skrefi.

Fjórða skref - örorkulífeyrir

Ef ljóst er að viðkomandi á ekki afturkvæmt í vinnu þarf að sækja um:

a) Örorkulífeyri til lífeyrissjóðs sem greitt hefur verið í. Umsóknareyðublöð er yfirleitt hægt að nálgast á heimasíðu lífeyrissjóðsins. Kannið einnig stöðu réttinda í lífeyrisgáttinni..

b) Örorkulífeyri til Tryggingastofnunar ríkisins. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið á vef TR..

Við vekjum athygli á því að gera þarf tvær aðskildar umsóknir og skila læknisvottorði á báða staði.