Fjárstyrkur og fallegar hugsanir
Þær Kristbjörg Ágústsdóttir og Elísa Berglind Sigurjónsdóttir söfnuðu fé til styrktar starfi Krabbameinsfélagsins með viðburði í Bleikum október.
Þær stöllur kenna báðar vatnsleikfimi og Aqua zumba, Kristbjörg í Garðabæ og Elísa Berglind í Mosfellsbæ. Í mörg ár hafa þær leitt saman hópana sína í sameiginlegum „Bleikum tíma” í Lágafellslaug þar sem er dansað, tekið á því, teygt, slakað, hugleitt og fallegar hugsanir sendar til þeirra sem glíma við krabbamein eða hafa tekist á við þau verkefni.
Tíminn varir í klukkustund og að honum loknum er boðið upp á veitingar í bleikum stíl. Þátttakendur greiða ekki þátttökugjald en tekið er á móti frjálsum framlögum.
Að þessu sinni nam upphæðin kr. 132.000 og var styrkurinn afhentur í gær.
