Byrjum árið á Styrkleikahring að fyrirmynd Joe Gillette
Við hvetjum alla til að taka þátt og ganga sín fyrstu Styrkleikaskref ársins helgina 11. – 12. janúar. Hægt er að ganga hvar sem er og eins lengi og hver og einn treystir sér til.
Sjálfboðaliðinn Joe Gillette ákvað fyrir nokkrum árum að ganga einn hring í nafni Styrkleikanna í byrjun hvers árs og hvatti aðra til að gera það sama. Síðan þá hefur framtíðarsýn Joe Gillette breiðst út um allan heim og í byrjun hvers nýs árs gengur fólk sinn fyrsta hring á árinu tileinkaða Styrkleikunum. Við hvetjum ykkur til að deila myndum með okkur með því að merkja myndirnar Krabbameinsfélaginu og Styrkleikunum. Einnig er hægt að deila myndum í Facebookviðburði.
Styrkleikarnir eru alþjóðlegt verkefni sem eru haldnir í yfir 30 löndum á 5000 stöðum og er markmiðið með Styrkleikunum að sýna stuðning með táknrænum hætti við þá sem glíma við krabbamein og aðstandendur þeirra og að heiðra og minnast ástvina.
Á árinu 2025 munu alþjóðlegu Styrkleikarnir fagna 40 ára afmæli, en fyrstu Styrkleikarnir á Íslandi voru haldnir árið 2022. Styrkleikaviðburðum hefur fjölgað jafn og þétt síðustu ár og er markmið okkar að fjölga þeim enn frekar á næstu árum. Styrkleikarnir eru einstakur viðburður þar sem fólk kemur saman og sýnir samstöðu og samkennd, það geta allir látið gott af sér leiða fyrir einstaklinga sem hafa greinst með krabbameins og aðstandendur þeirra.
Vilt þú halda Styrkleika?
Það geta allir, hópar, félagasamtök, fyrirtæki og skólar haldið sína Styrkleika. Styrkleikarnir ganga þannig fyrir sig að einstaklingar eða lið vinna saman að því að halda boðhlaupskefli á hreyfingu í fyrirfram ákveðinn tíma. Styrkleikarnir eru ekki keppni, heldur fer hver á sínum hraða.
Allar frekari upplýsingar veitir Rakel Ýr Sigurðardóttir hjá Krabbameinsfélaginu, rakel@krabb.is