Beint í efni

Eru tengsl milli trufl­unar á ör­veru­flóru barna og al­var­legra sýk­inga á með­an krabba­mein­s­lyfja­með­ferð stend­ur?

Valtýr Stefánsson Thors rannsakar hvort tengsl séu milli truflunar á örveruflóru barna og alvarlegra sýkinga á meðan krabbameinslyfjameðferð stendur.

Börn sem greinast með krabbamein þurfa að gangast undir stranga krabbameinsmeðferð. Meðferð þessi hefur umtalsverð áhrif á flestar frumur líkamans.

Langtímaáhrif krabbameinsmeðferðar í æsku eru margvísleg, oft óljós eða óviss og mörg lítt þekkt. Vissulega eru þessi einkenni mismunandi eftir tegundum krabbameins, meðferð sem er beitt og aldri barnsins. Þó er augljóst að betri þekking á langtímaáhrifum er mikilvæg.

Þekkt er að börnum, sem hafa verið meðhöndluð við krabbameini, er hættar við sýkingum í marga mánuði eða ár að lokinni meðferð Þá er einnig þekkt að sjálfnæmissjúkdómar eins og astmi, ofnæmi og bólgusjúkdómar eru algengari í þessum hópi. Þá er þessum börnum hættar við ofþyngd eða offitu í kjölfar meðferðarinnar. Skýringar á þessum vandamálum liggja ekki fyrir.

Í rannsókn okkar viljum við meta hvort þessi atriði kunni að tengjast frávikum í ónæmiskerfinu, jafnvel árum saman, að lokinni meðferð.

Rannsóknin hlaut 8 milljóna króna styrk úr sérstakri stærri úthlutun Vísindasjóðs árið 2024.