Beint í efni

Maga­krabba­mein

Dregið hefur verulega úr tíðni magakrabbameina á undanförnum áratugum en í byrjun sjöunda áratugarins greindust þrefalt fleiri tilfelli á ári en nú gerist. Talið er að ein skýringin sé sú að við borðum nú minna af söltuðum og reyktum mat.

Hvað er magakrabbamein?

Maginn er í kviðarholinu, undir vinstri rifjaboga. Fæðan gengur niður vélindað og niður í maga, sem hefur bæði starfrænt og efnafræðilegt hlutverk í meltingu fæðunnar. Saltsýra og efnahvatar í magasafanum blandast fæðunni og taka þátt í að brjóta hana niður. Úr maganum fer fæðan niður í smágirnið og er fyrsti hluti þess skeifugörnin. Magakrabbamein á langoftast upptök sín í kirtilfrumum magaslímhúðarinnar og er þá af flokki kirtilkrabbameina. Í maganum geta einnig myndast aðrar æxlisgerðir, t.d. eitilfrumukrabbamein (lymphoma), en þess konar æxli eru meðhöndluð á annan hátt.

Helstu einkenni

Magakrabbamein er gjarnan einkennalítið á byrjunarstigi.

  • Óþægindatilfinning í kvið eða kviðverkir. Þau einkenni sem koma fyrir eru oft sambærileg við einkenni frá magabólgum og magasárum, t.d. óþægindatilfinning í kvið og óljósir verkir í kvið.
  • Lystarleysi kemur venjulega síðar fram og einnig það að verða fljótt mettur og þyngdartap án augljósrar ástæðu.
  • Blóðleysi og slappleiki. Æxlið getur valdið blæðingum, t.d. seytlblæðingu þar sem lítið blóð í einu vætlar frá æxlinu og getur það haft í för með sér blóðskort og valdið þreytu og slappleika. Slíkar minni blæðingar eru algengari en miklar blæðingar, en unnt er að skoða hvort blóð er til staðar í hægðum þó að ekki sé það sýnilegt með berum augum.
  • Svartar hægðir geta verið tákn um blæðingu frá efri hluta meltingarvegar, m.a. frá maga.
  • Blóðug uppköst. Við mikla blæðingu frá æxli í maga getur sjúklingur einnig fengið blóðug uppköst.

Greining

Besta aðferðin til að greina magakrabbamein er magaspeglun. Við þá rannsókn er mjúkri slöngu rennt niður eftir vélinda og niður í maga og oft áfram niður í skeifugörn. Með magaspeglunartækinu getur læknirinn rannsakað líffærin að innan. Í gegnum magaspeglunartækið er einnig hægt að taka vefjasýni til smásjárrannsóknar frá stöðum sem talið er rétt að athuga sérstaklega og þannig má t.d. greina hvort um er að ræða bólgubreytingar, magasár eða krabbameinsvöxt. Þegar vefjagreining hefur staðfest að um magakrabbamein er að ræða eru oftast gerðar frekari rannsóknir. Ber þar fyrst að nefna ómspeglun þar sem sameinast magaspeglun og ómskoðun. Gefur sú rannsókn gleggri mynd af stærð æxlisins, hve langt það teygir sig inn í magavegginn og hvort mein hafi dreift sér í aðlægan eitilvef. Auk ómspeglunar eru oft gerðar myndrannsóknir eins og tölvusneiðmynd sem gefur ítarlegri upplýsingar um útbreiðslu meinsins.

Meðferð

Þegar allar upplýsingar liggja fyrir og talið er að hægt sé að lækna magakrabbameinið með skurðaðgerð er oftar en ekki byrjað á því að gefa krabbameinslyfjameðferð með það að markmiði að minnka meinið. Síðan er skurðaðgerð framkvæmd þar sem oftast er allur maginn eða stór hluti hans fjarlægður ásamt aðlægum eitlum. Eftir brottnám magans eða hluta hans er efri hluti magans eða vélindaendinn tengdur við smáþarmana. Að lokinni skurðaðgerð er svo krabbameinslyfjameðferð og/eða geislameðferð gefin með það að markmiði að draga úr hættu á endurkomu sjúkdómsins. 

Eftir magauppskurð er minna pláss fyrir fæðuna sem fer því stundum of fljótt niður í smáþarmana, sem getur skapað talsverð vandamál, sérstaklega fyrstu mánuðina eftir uppskurð. Með því að borða fleiri og minni máltíðir og tyggja matinn vel er hægt að minnka slík vandamál. Fyrir þá sjúklinga þar sem skurðaðgerð er ekki möguleg er stundum hægt að beita krabbameinslyfjameðferð og/eða geislameðferð til að draga úr einkennum og tefja framgang sjúkdómsins.

Áhættuþættir og forvarnir

Saltaður og reyktur matur. Margar orsakir geta verið fyrir því að tilfellum magakrabbameins hefur fækkað mjög hér á landi. Ein skýring getur verið sú að fyrr á árum var matur saltaður eða reyktur svo hægt væri að neyta hans síðar, en nú, þegar nær öll heimili eru með kæli- og frystiskáp, borðum við minna af reyktum og söltuðum mat. Með söltun og reykingu á matvælum geta myndast nítrósamínsambönd sem eru krabbameinsvaldandi. Nýgengi magakrabbameins hefur t.d. verið hlutfallslega hátt í Japan, þar sem neysla á söltuðum mat er mikil.

Hátt hlutfall grænmetis og ávaxta í fæðu er talið minnka líkurnar á magakrabbameini.

Helicobacter pylori sýkill. Hin hefðbundna gerð magakrabbameina sem virðist í rénun er krabbamein í sjálfum magasekknum í þeim hluta sem er næstur skeifugörninni. Helsta orsök þessara krabbameina er talin vera minnkandi sýruframleiðsla í maga ásamt sýkingu með Helicobacter pylori sýklinum, en hann er mikilvægasta ástæða maga- og skeifugarnarsára. Mögulegt er að breytingar á faraldsfræði Helicobacter pylori sýkinga hafi nokkuð að segja varðandi lækkun á nýgengi magakrabbameina hér á landi. Á Íslandi hefur tíðni sýkinga með þessum sýkli lækkað mikið. Mikil notkun sýklalyfja getur hafa dregið úr tíðninni en einnig hefur aukið hreinlæti og meiri gæði drykkjarvatns stuðlað að fækkun sýkinga.

Offita, bakflæði og hitaeiningaríkt fæði. Samhliða því að nýgengi magakrabbameins af hefðbundinni gerð hefur minnkað hefur nýgengi magakrabbameins á mótum maga og vélinda hins vegar vaxið hlutfallslega á seinni árum. Rannsóknir benda til þess að helstu orsakir magakrabbameins í þessum hluta magans séu offita og magasýrubakflæði, sem oft tengist offitu, ásamt neyslu hitaeiningaríks fæðis.

Reykingar geta einnig ýtt undir hættu á að þróa með sér magakrabbamein, einkum á mótum maga og vélinda.

Tölfræði og lífshorfur

Ef magakrabbamein er greint áður en það hefur dreift sér eða vaxið djúpt í magavegginn eru horfur eftir aðgerð yfirleitt mjög góðar. Mörg æxli finnast þó ekki fyrr en þau hafa náð að dreifa sér út fyrir magann og jafnvel til fjarlægra líffæra og eru þá batahorfurnar mun verri.

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri - Krabbameinsskrá