Hreyfing og krabbamein
Hugsanlega er löngun til að hreyfa sig víðs fjarri þegar þreyta, veikindi og álag er til staðar. Hófleg og skynsamleg hreyfing gæti hins vegar gefið aukna orku og vellíðan.
Hreyfing getur hjálpað þér að viðhalda styrk, draga úr þreytu, bæta svefn og styrkja sjálfsmyndina. Auk þess sýna rannsóknir að hreyfing hefur jákvæð áhrif á andlega líðan.
Öll hreyfing er af hinu góða, hversu lítil eða mikil sem hún er. Bara það að labba hringinn í kringum húsið eða ganga stigann mun skila sér. Það er alltaf betra að hreyfa sig eitthvað frekar en ekki neitt. Hlustaðu á líkamann. Það er betra að fara sér rólega. Hafir þú áður stundað hreyfingu er viðbúið að um sinn getirðu ekki stundað hana af sama krafti og áður.
Veldu þér hreyfingu sem hentar í núverandi aðstæðum. Finnir þú fyrir svima eða verkjum skaltu stoppa. Farðu rólega af stað og hafi þú ekki stundað reglulega hreyfingu getur verið nóg að hreyfa sig 5-10 mínútur til að byrja með. Aðalatriðið er að gera hreyfinguna að reglubundinni venju og auka hana smátt og smátt. Ef til vill er einhver þér nákominn til í að taka að sér hlutverk einkaþjálfarans með því að fara með þér út að labba eða í sund, jafnvel þótt það sé bara stutta stund á hverjum degi - það skilar sér.