Núvitundarganga
Það er hægt að nota ýmsar aðferðir og æfingar til að tileinka sér líf í núvitund. Ein æfingin snýst til að mynda um að æfa núvitund á göngu en margir stunda gönguferðir til að styrkja líkama og sál.
Núvitund byggir á ævafornri hugleiðsluaðferð og snýst um viðleitni okkar til að vera til staðar hér og nú. Að bera kennsl á það sem á sér stað innra með okkur og fyrir utan okkar. Í því felst að læra að vera meðvituð um líkama okkar, tilfinningar og hugsanir án þess að gagnrýna eða reyna að breyta þeim heldur frekar að taka eftir eins og hlutlaus áhorfandi og nálgast tilfinningar okkar og hugsanir af mýkt og kærleika.
Það er hægt að nota ýmsar aðferðir og æfingar til að tileinka sér líf í núvitund. Ein æfingin snýst til að mynda um að æfa núvitund á göngu en margir stunda gönguferðir til að styrkja líkama og sál. Hér kemur því hugmynd að núvitundargöngu.
Gott er að standa kyrr í smástund áður en lagt er af stað, finna vel fyrir jörðinni undir fótunum. Rétta úr brjóstkassanum og þrýsta öxlunum aðeins aftur. Slaka á öxlum og draga djúpt inn andann.
Þegar lagt er af stað og á göngunni er gott að hafa eftirfarandi í huga og taka eftir:
- Hvernig hællinn snertir fyrst jörðina og hvernig restin af ilinni og tærnar fylgja svo á eftir. Þú tekur líka eftir því hvernig handleggirnir hreyfast með hverju skrefi sem þú tekur
- Hvort þú finnur einhvern ilm í loftinu
- Hvort þú finnur merki um þá árstíð sem er við völd núna
- Hljóðum sem þú heyrir
- Litum sem þú sérð
- Öllum smáatriðum í umhverfi þínu
- Því sem verður á vegi þínum og fyllir þig gleði, þakklæti eða innblæstri. Er það ferska loftið, hlýjan frá sólinni, fallegt laufblað, form á steini, brosandi andlit, fuglasöngur, blóm, árstíðaskipti eða bara það að finna jörðina undir fótum þínum?
Þegar þú tekur eftir einhverju sem vekur með þér ánægju eða vellíðunartilfinningu skaltu leyfa þér þá að beina allri athyglinni að því – gefa þig algjörlega að þessum hlut og skynja hann eins og ekkert annað sé jafn merkilegt í þessum heimi.
Njóttu og upplifðu.