Beint í efni
Gunnar Ingi Jones

Hreyf­ing hef­ur haft gíg­ant­ísk áhrif á and­lega heilsu hjá mér

Gunnar Ingi Jones datt í ræktinni og gaf því engan gaum fyrr en um ári síðar þegar hann uppgötvaði áberandi kúlu á mjöðminni. Hann hafði verið verkjalaus allan tímann en velti því fyrir sér hvort eitthvað hefði gróið vitlaust og fór því til heimilislæknis sem hann segir hafa verið mjög fljótan að átta sig. Lækninum þótti kúlan ekki eðlileg ,enda reyndist hún innihalda illkynja æxli, liposarcoma (fitusarkmein).

Þegar hann fékk greininguna man hann eftir að hafa farið inn í eitthvert herbergi og horft út um gluggann og spurt sig hvort hann væri að fara að deyja, hvort það væri bara að fara að gerast?

Honum skilst að fitan hafi bjargað sér; ,,Fitan mín eiginlega bjargaði því að æxlið var ekki búið að dreifa sér því það var inni í fituhjúp í rauninni. Svo fer ég í aðgerð, það var tekið og ég þurfti sem betur fer ekki að fara í neitt meira en það“.

Þegar frá leið segir Gunnar Ingi að ýmsir sálrænir kvillar hafi farið að koma í ljós. Hann fékk kvíða, mikinn heilsukvíða sem lýsti sér þannig að ef hann rak til að mynda tána í, þá var hann viss um að krabbameinið væri komið aftur.

Hann segist alltaf eiga eftir að muna orð læknisins sem sagði honum að besta vopnið þegar maður fengi svona greiningu væri að vera í góðu líkamlegu og andlegu ástandi, því þá væri líkaminn miklu betur undirbúinn að tækla framhaldið.

,,Fyrir mitt leyti þá hefur hreyfing haft alveg gígantísk áhrif á andlega heilsu hjá mér, sem er mjög mikilvæg, hvort sem þú hefur fengið krabbamein eða ekki“.

Gunnar spurði lækninn hvort hann gæti gert eitthvað til að fá ekki krabbamein aftur, hvort hann ætti jafnvel að hætta að borða eitthvað? Heilsusamlegar lífsvenjur draga vissulega úr líkum á krabbameinum en eins og læknirinn sagði Gunnari þá er samt ekkert sem maður getur gert sem getur tryggt það að maður fái ekki krabbamein. Hinsvegar sé það þannig, að ef maður hreyfir sig reglulega og borðar hollt, sé líkaminn mun betur undirbúinn fyrir það ef maður skyldi þurfa að takast á við eitthvað svona seinna meir.