Að greinast
Að greinast með krabbamein er áfall, þar sem þér er kippt út úr daglegu lífi yfir í ferli sem minnir helst á rússíbanareið. Það getur reynt á að segja öðrum frá krabbameininu og takast á við viðbrögðin auk þess sem krabbameinsmeðferðin sjálf getur tekið á líkama og sál. Við þær aðstæður er gott að vita að það er ýmislegt sem þú getur gert til að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu.
Sálræn viðbrögð við greiningu
Við greiningu er algengt að upplifa stjórnleysi og finna til vanmáttar, að lífið standi í stað en á sama tíma vera kippt inn í veruleika sem felur í sér nýjar aðstæður, ný andlit ásamt ógrynni af upplýsingum í tengslum við ný og framandi orð.
Spurningar um lífið og dauðann ásamt áhyggjum af breytingum á daglegu lífi sækja að. Í þessari rússíbanareið er eðlilegt að upplifa dofa til að byrja með, finna fyrir ótta, depurð og einmanaleika.
Það getur hjálpað að deila þessari reynslu með öðrum, einhverjum sem þú treystir. Krabbameinsfélagið býður upp á ráðgjöf og stuðning, þar sem þú getur sest niður með ráðgjafa til að ræða það sem hvílir á þér. Hér má lesa nánar um viðtöl hjá ráðgjöfum Krabbameinsfélagsins.
Þó að það sé margt í þessum aðstæðum sem þú hefur ekki stjórn á er ýmislegt sem þú getur gert til að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu. Það mikilvægasta er að gefa sér svigrúm og tíma til að hlúa að sér. Þá skiptir máli að huga að þáttum eins og svefni, næringu og hreyfingu og ekki síst því að vinna með hugann og hugarástandið.
Að segja öðrum frá krabbameininu
Mörgum reynist erfitt að segja sínum nánustu frá krabbameininu. Á meðan sumir hafa þörf fyrir að ræða opinskátt um krabbameinið velja aðrir að halda veikindunum út af fyrir sig eða ræða þau við fáa útvalda.
Ef þú átt börn er mikilvægt að segja þeim frá því að þú hafir greinst með krabbamein. Börn finna fljótt fyrir öllum breytingum og hafa þörf fyrir upplýsingar sem hæfa þroska þeirra og aldri. Þau þurfa að vera þátttakendur, annars er hætta á að þau upplifi sig utanveltu eða ímyndi sér hlutina verri en þeir eru í raun og veru.
Að þiggja aðstoð
Þeir sem greinast með krabbamein upplifa oft mikla umhyggju í sinn garð frá ættingjum, vinum, starfsfélögum, heilbrigðisstarfsfólki og öðrum, því margir hafa þörf fyrir að aðstoða eða verða að liði á einhvern hátt.
Það getur hins vegar sært tilfinningar þínar að fá ekki stuðning frá þeim sem þú væntir þess, að viðkomandi sýnir ekki vilja til þess. Ástæðan getur verið að viðkomandi á hreinlega ekki möguleika á að hjálpa eða:
- glímir við vandamál eða skortir tíma
- á að baki erfiða reynslu tengda krabbameini eða óttast krabbamein
- heldur að það rétta sé að halda sig fjarri þegar aðrir eiga í vanda
- áttar sig ekki á erfiðleikum þínum eða skynjar ekki að þú þarfnast aðstoðar nema þú tjáir það skýrt
- er óörugg/ur með að sýna umhyggju
Það er gott að ræða hreinskilnislega við alla sem þú telur þig þarfnast aðstoðar frá og útskýra hvers þú þarfnast. Ef tengslin við manneskjuna eru þér kær er sennilega best að segja viðkomandi hvernig þér líður. Það getur komið í veg fyrir að gremja eða streita safnist upp og skaði samband ykkar.
Að þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda
Heilbrigðisstarfsfólk starfar eftir bestu þekkingu og reynslu við meðhöndlun á krabbameini og leggur sig fram við að koma til móts við þig og þínar þarfir.
Hafir þú nýlega greinst með krabbamein er líklegt að næstu daga og vikur munir þú kynnast nýjum hliðum heilbrigðisþjónustunnar ásamt ólíkum deildum spítalans. Það gæti vaxið þér í augum að vera í aðstæðum sem þú hvorki þekkir né hefur tímabundið stjórn á.
Til að auðvelda þessar aðstæður hefur Landspítalinn sett saman sjúklingaráðin 10, og hvetur alla til að nýta þau ráð sem þar eru gefin í samskiptum sínum við heilbrigðisstarfsfólk og vera þannig virk í sinni meðferð.
Þjónusta Krabbameinsfélagsins
Allir sem greinast með krabbamein geta nýtt sér gjaldfrjáls viðtöl við faglega ráðgjafa Krabbameinsfélagsins sem eru til staðar til að hlusta og veita stuðning eða ráðgjöf.
Við bjóðum einnig upp á ýmis námskeið og fyrirlestra sem miða að því að efla andlega og líkamlega líðan.
Þá eru einkatímar og hóptímar í Jóga nidra djúpslökun í boði.
Hér má lesa nánar um viðburði og námskeið á vegum Krabbameinsfélagsins.
Gagnlegt efni
Hér höfum við tekið saman gagnlegt efni sem getur svarað einhverjum af þeim spurningum sem vakna við greiningu krabbameins.
Ráðgjöf og stuðningur þér að kostnaðarlausu
Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.