Komdu út að ganga!
Hvort sem maður er vanur gönguferðum eða ekki er núna frábær tími til að setja sér markmið um að byrja að ganga eða gefa í og fjölga skiptum eða lengja ferðirnar. Um leið er gaman að fylgjast með fuglalífi og uppgangi gróðurs.
Það þarf ekki að hamast í ræktinni til að hafa jákvæð áhrif á heilsuna. Í hvert sinn sem við reimum á okkur skóna og örkum af stað í göngutúr stuðlum við að betra heilsufari okkar og bættri líðan. Regluleg hreyfing hefur fjölþætt góð áhrif á starfsemi líkamans og getur bætt líkamlega og andlega heilsu. Meðal annars dregur regluleg hreyfing úr líkum á ristilkrabbameini og fleiri tegundum krabbameina, auk margra annarra langvinnra sjúkdóma.
Hvort sem maður er vanur gönguferðum eða ekki er núna frábær tími til að setja sér markmið um að byrja að ganga eða gefa í og fjölga skiptum eða lengja ferðirnar. Um leið er gaman að fylgjast með fuglalífi og uppgangi gróðurs.
Að ganga í sól og logni er notalegt. Samt er um að gera að hika ekki þótt veðrið sé á öðrum nótum heldur klæða sig þá í takt við veður og vinda. Rok og rigning getur verið mjög hressandi.
Við hvetjum fólk til að stunda gönguferðir, bæði stuttar og langar, innanbæjar eða úti í sveit og uppi á fjöllum. Svo er tilvalið að drífa aðra með sér; vini, foreldra, börn, afa og ömmu eða kannski nágrannann. Gönguferðir með góðu fólki eru hreinasta afbragð.