Hálfgerð njósnastarfsemi að rannsaka hlutverk gensins
Inga Reynisdóttir rannsakar hlutverk VMP1-gensins í brjóstaæxlismyndun og telur það vera fyrsta skref í átt að frekari meðferðarúrræðum.
Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna. Fyrri rannsóknir Ingu Reynisdóttur, náttúrufræðings við meinafræðideild Landspítala, og samstarfsmanna hafa leitt í ljós að þegar mikið er af geni sem nefnist Vacuole Membrane Protein 1 (VMP1) eru líkur á því að konur sem greinast með brjóstakrabbamein lifi skemur en ella eftir greiningu. Mikið er af geninu í svokölluðum HER2 jákvæðum brjóstaæxlum sem hafa tilhneigingu til að vera illvígari en aðrar tegundir brjóstakrabbameins.
„Þetta er svona hálfgerð njósnastarfsemi,“ segir Inga, spurð út í verkefnið, og vísar þá til þess að verið sé að varpa ljósi á hlutverk gensins í myndun æxla. Til þess notar hún frumulíkön.
Spurð út í það hvernig sé að stunda rannsóknir með aðstoð fruma segir Inga að það sé mikil vinna og þeim þurfi að sinna vel, m.a. þurfi að gefa frumunum næringu u.þ.b. annan hvern dag. „Jú, þegar maður hefur lagt mikla vinnu og vonir í frumurnar, þá sinnir maður þeim um jól, áramót, páska og sumar.“
Verkefni Ingu, Aukin tjáning Vacuole Membrane Protein 1 (VMP1) tengist verri horfum sjúklinga með HER2 brjóstakrabbamein, hlaut 5 milljón kr. styrk árið 2019 og 1,8 milljón kr. styrk árið 2020 úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins. Styrkurinn var nýttur fyrir laun doktorsnemans Arsalan Amirfallah.
Styrkurinn er afar mikilvægur fyrir þessa rannsókn og gerir okkur kleift að skilgreina hlutverk VMP1 gensins í brjóstaæxlismyndun, og er það fyrsta skref í átt að frekari meðferðarúrræðum.“