Hægt að laga sérhæfð vandamál
Ragnar Bjarnason og Vigdís Hrönn Viggósdóttir rannsaka síðbúnar afleiðingar krabbameina í æsku og einbeita sér m.a. að hjartaheilsu og lífsgæðum.
Krabbamein og krabbameinsmeðferðir á barnsaldri geta haft áhrif á heilsufar og lífsgæði á fullorðinsaldri. Haustið 2016 opnaði Miðstöð síðbúinna afleiðinga krabbameina á Barnaspítala Hringsins. Hún er fyrir einstaklinga sem fengu krabbamein sem börn eða unglingar 1981 eða síðar, eru orðin 18 ára og eru laus við sjúkdóminn.
Mikilvægi rannsóknarinnar
Vigdís Hrönn Viggósdóttir hjúkrunarfræðingur leiddi þróun miðstöðvarinnar og starfar við hana. Strax í upphafi var henni ljóst mikilvægi þess að gera rannsókn samhliða opnun miðstöðvarinnar.
„ Hvatinn minn til að gera þessa rannsókn er að þetta er rosalega sérhæfð þjónusta og alveg ný á Íslandi. Markmiðið er að sjálfsögðu að halda móttökunni opinni áfram og þá vill maður að þetta sé eins gott og mögulega er hægt og vill raunverulega vita að svo sé, sem rannsóknin mun leiða í ljós.“
Hún skráði sig því í doktorsnám undir handleiðslu Ragnars Bjarnasonar, yfirlæknis á Barnaspítala Hringsins og prófessors við Háskóla Íslands.
Rannsóknin Síðbúnar afleiðingar krabbameina í æsku: Heilsufar, lífsgæði og hjarta- og efnaskiptatengdir áhættuþættir á fullorðinsaldri hefur hlotið styrki úr Vísindasjóði Íslands: 4,3 milljónir kr. árið 2020 og 400 þúsund kr. árið 2018.
Styrkurinn gerir Vigdísi kleift að fara í leyfi frá öðrum störfum til að geta sinnt rannsókninni af heilum hug:
„ Styrkurinn skiptir öllu máli, ég er rosalega þakklát fyrir hann. Ég hlakka til að fara í námsleyfi og hella mér í það að vinna úr gögnunum af fullum krafti. Þannig að fyrstu niðurstöður verða vonandi komnar fyrir árslok.“
Vígdís og Ragnar veittu frábært viðtal um miðstöðina og rannsóknina sem er skipt upp í búta hér að neðan. Endilega lesið.