Námskeið: Heilnæm útivist og fræðsla
Í samvinnu við Ferðafélag Íslands.
Námskeiðið hefst 14. september og stendur til boða þeim sem einhvern tímann hafa greinst með krabbamein og aðstandendum þeirra.
Fyrirkomulag og kostnaður
Gengið er að mestu á sléttu landi og ættu flestir að geta ráðið við göngurnar sem eru fléttaðar ýmiskonar áhugaverðum fróðleik um náttúru og sögu.
- Gengnar eru mismunandi leiðir á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess.
- Gengið er alla laugardaga frá 14. september – 14. desember, alls 14 skipti.
- Lagt er upp klukkan 10:00 og vara göngurnar að jafnaði í um tvo klukkutíma.
Markmiðið er að njóta hollrar útivistar, fræðslu og félagsskapar við fólk sem deilir reynsluheimi og stuðla þannig að betri andlegri og líkamlegri heilsu fólks sem tekst á við afleiðingar krabbameins og meðferðar vegna þess.
Fararstjórn og umsjón er í höndum Páls Ásgeirs Ásgeirssonar og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur, fararstjórum hjá Ferðafélagi Íslands.
Fyrstu þrjú skiptin eru án endurgjalds svo fólk geti komið til að prófa hvort göngurnar henti þeim. Eftir það er þátttökugjald 5.000 kr. (samanlagt fyrir allar göngurnar þaðan í frá).
Skráning á radgjof@krabb.is eða í síma 800 4040.
Dagskrá haustsins (með fyrirvara um hugsanlegar breytingar):
Hólmsheiði - 14.september. Gengið frá Mbl höllinni við Rauðavatn upp í heiðina í leit að listaverkum. Reynt að finna þokkalegan hring án þess að vera á reiðvegum.
Kaldársel - 21. september. Gengið frá bílastæði um vatnsveituslóðir inn í Helgadal og þaðan inn á slóðina í Valaból og til baka eftir Helgafellsslóð. Saga Farfuglahreyfingarinnar á Íslandi og vatnsveitunnar í Hafnarfirði.
Mosfellsdalur - 28. september. Gengið frá Reykjum inn í Helgadal og svo hringinn yfir að Mosfelli. Fjöllum ítarlega um silfur Egils og reynum að átta okkur á því hvar það sé grafið. Sá á fund sem finnur.
Kaldársel - 5. október. Gengið upp að sumarbústöðum og í Hvatshelli og til baka undir Sléttuhlíð. Þar rétt hjá er Selshellir sem er ekki síður áhugaverður. Förum undir yfirborðið.
Viðey - 12.október. Söguganga og kúmentínsla. Skúli fógeti reyndi að rækta tóbak í Viðey. Gáum að því hvort við finnum ekki kúmen. Steinn Steinarr átti heima í VIðey um tíma.
Óttarsstaðir - 19. október. Gengið frá Straumi með sjó að Óttarsstöðum og lengra eftir atvikum. Við sjóinn standa eyðibýli og minjar um sjósókn fyrri tíma. Tölum um sr. Hallgrím Pétursson sem eitt sinn bjó á þessum slóðum.
Nauthólsvík - 26. október. Gengið hringinn í kringum flugvöllinn. Hver á þennan flugvöll? Já eða nei. Hvar eru húsin sem þurfti að flytja til að rýma fyrir honum? Allt kemur þetta í ljós.
Vatnsveituganga - 2. nóvember. Gengið að vatnsveitumannvirkjum Hafnfirðinga og talað um Jóhannes Reykdal. Jóhannes var Þingeyingur sem var óvenjulega langt á undan sinni samtíð en Hafnfirðingar nutu góðs af.
Reynisvatn - 9. nóvember. Gengið frá vatninu um Hólmsheiði sérstaklega skíðaslóðir og fisflugvöllinn.
Gálgahraun - 16. nóvember..Gengið um söguslóðir á Álftanesi með sérstakri áherslu á Óla Skans. Var Óli til? Bjó hann við heimilisofbeldi eða er þetta allt saman eitthvert grin?
Heiðmörk - 23. nóvember. Gengið frá efra bílastæði að norska bústað og víðar. Saga gróðursetningar í Heiðmörk og lesið úr ljóðum eftir Jóhannes Kolbeinsson sem var frægur fararstjóri FÍ fyrr á tíð.
Hafravatn - 30. nóvember. Gengið frá gömlu réttinni áleiðis upp í Þormóðsdal. Saga gullgraftar á Íslandi liggur þarna undir sverðinum ásamt fleiru.
Skammidalur - 7. desember. Ganga frá Reykjalundi upp að bústöðum og fara svo einskonar hring um Skammadal. Saga kartöfluræktar í þéttbýli er þarna í dalnum og hún er ekkert smælki.
Hellisheiðarvirkjun - 14. desember. Gengið að Draugatjörn og sæluhúsrústunum. Fjallað um búsetu og staðarhald á Kolviðarhóli. Sagt frá frækilegum afrekum, hroðalegum draugagangi og erfiðum ferðalögum.
- Markmiðið er að njóta hollrar útivistar, fræðslu og félagsskapar við fólk sem deilir reynsluheimi og stuðla þannig að betri andlegri og líkamlegri heilsu fólks sem tekst á við afleiðingar krabbameins og meðferðar vegna þess.