Beint í efni

Líð­an og bjargráð

Margir upplifa sig í lausu lofti eftir greiningu krabbameins. Óvissan um það sem tekur við er erfið og getur valdið kvíða.

Oft þarf að gera ákveðnar rannsóknir áður en hægt er að ákveða hvernig framhaldinu verði háttað. Þetta á þó ekki við í öllum tilvikum.

Þegar niðurstöður liggja fyrir hafa sérfræðingar samráð og leggja upp áætlun um meðferð. Sú ákvörðun er byggð á bestu mögulegu þekkingu hverju sinni. Stundum dugar skurðaðgerð ein og sér til að fjarlægja krabbameinið þegar æxlið er vel afmarkað. Oft er þó lyfjameðferð og/eða geislameðferð nauðsynleg, annað hvort fyrir skurðaðgerð til að minnka æxlið og auka þannig líkur á að allt náist eða eftir skurðaðgerð í þeim tilgangi að eyða krabbameinsfrumum sem mögulega gætu hafa orðið eftir. 

Aðrar meðferðir sem notaðar eru við vissum krabbameinssjúkdómum eru, svo eitthvað sé nefnt, stofnfrumuskipti, beinmergsskipti, hormónameðferð, líftæknilyf og ónæmismeðferð. 

Yfirleitt upplifir fólk vissan létti þegar allar rannsóknarniðurstöður liggja fyrir og búið er að leggja upp áætlun varðandi meðhöndlun krabbameinsins. Oft lýsir fólk því þannig að það fái aftur fast land undir fæturna þótt eðlilegt sé að upplifa áfram kvíða og sveiflur í andlegri líðan í ferlinu sem tekur við.

  • Það er flestum mikið áfall að greinast með krabbamein. Margir hafa lýst tilfinningunni þannig að það sé eins og lífið standi í stað en um leið sé þeim kippt inn í veruleika sem felur í sér ógrynni af nýjum upplýsingum og fjölmörg ný andlit. Fólk bregst við atburðum í lífinu á mismunandi hátt en hér eru nefnd nokkur algeng viðbrögð við því að greinast með krabbamein. 

  • Eðlilegt er að upplifa dofa til að byrja með og þér gæti fundist óraunverulegt að vera komin/-n í þessi spor, sérstaklega ef krabbameinið veldur engum einkennum. Þú gætir fundið fyrir erfiðleikum við að einbeita þér og muna eða meðtaka þær upplýsingar sem þú þarft að taka við. 

  • Ákveðnar hugsanir geta verið þrálátar og leitt þig aftur og aftur að verstu mögulegu niðurstöðunni. Margir upplifa ótta og óvissu þegar horft er til framtíðar og þess hvernig þeim muni reiða af. Mikilvægt er að minna sig á að líkurnar á því að læknast af krabbameini eða að lifa með því eru meiri nú en nokkru sinni áður.

  • Þegar breytingar verða sem setja lífið úr skorðum er eðlilegt að finna fyrir depurð. Þú gætir upplifað depurð yfir því að þurfa að takast á við krabbameinið og geta ekki haldið áfram með líf þitt eins og það var. Þessu getur fylgt einmanaleiki, jafnvel þótt þú hafir marga í kringum þig sem eru reiðubúnir að styðja þig.

  • Þú gætir fundið fyrir reiði eða vonbrigðum í garð líkama þíns eða krabbameinsins. Reiði út heilbrigðisstarfsfólk, sjálfa/-n þig, aðra í kringum þig eða almættið. Oft geta undirliggjandi þættir eins og vanlíðan, hræðsla og spenna ýtt undir reiðina. 

  • Sumir upplifa sektarkennd sem getur komið fram í því að kenna sjálfum sér um að hafa fengið krabbameinið. Mikilvægt er að hafa í huga að í flestum tilvikum er ómögulegt að segja til um hvað nákvæmlega veldur krabbameini. Þar geta blandast saman margir þættir sem læknar og fræðimenn skilja ekki enn til fulls. Sektarkennd getur líka átt rætur í hugsunum um að valda sínum nákomnu vanlíðan og áhyggjum. Það er mikilvægt að geta rætt slíkar hugsanir upphátt og unnið með tilfinningarnar sem þeim fylgir.

Mundu að þú ert ekki ein/-n

Að deila líðan þinni og reynslu með einhverjum sem þú treystir vel getur hjálpað meira en þig grunar, hvort sem það er fjölskyldumeðlimur, vinur eða einhver annar. Það er gott að geta áttað sig á og sett nafn á þær tilfinningar sem þú ert að upplifa. Það eitt og sér getur dregið úr ákefð þeirra og auðveldað þér að sjá hlutina í víðara samhengi.

Ráð­gjöf og stuðn­ing­ur þér að kostn­að­ar­lausu

Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.