Vegferð Bleiku slaufunnar er víðfem
Um leið og Bleiku slaufunni, árlegu fjáröflunar og árvekniátaki Krabbameinsfélagsins lauk á siðasta ári hófst undirbúningurinn fyrir Bleiku slaufuna 2024 sem nú stendur fyrir dyrum.
Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og fjáröflunar Krabbameinsfélagsins segir vegferð Bleiku slaufunnar víðfema. Finna þurfi nýjan hönnuð, eiga fundi varðandi vöruhönnunina, finna réttu framleiðsluaðferðina og síðast en ekki síst rétta framleiðandann.
Leggjumst öll á árarnar
Hann segir starfsfólk félagsins einstakt í öllu þessu ferli. ,,Hér leggjumst við öll sem eitt á árarnar við að sigla þessu átaki í höfn. Markmiðið er að ná sem mestum árangri með vitundarvakningu, sem í hvert sinn fjallar um eitthvað ákveðið tengt krabbameinum hjá konum. Og við viljum selja sem flestar slaufur, starfsemi Krabbameinsfélagsins er alfarið rekin fyrir stuðning almennings og fyrirtækja í landinu og Bleika slaufan er mjög stór hluti þess”.
Góður undirbúningur er mikils virði
Það er gríðarlega mikilvægt að fá Bleiku slaufuna snemma í hús. Krabbameinsfélagið er ekki fjölmennur vinnustaður en öll leggja hönd á plóg við að pakka henni og dreifa í verslanir um allt land. ,,Síðustu ár höfum við verið svo lánsöm að fá hingað sjálfboðaliða frá Íslandsbanka og Össuri sem hefur auðveldað okkur vinnuna mikið. Svo höfum við notið aðstoðar TVG síðustu ár við að flytja hana til landsins og senda hana um allt land. Þetta er ekki sjálfgefið og erum við gríðarlega þakklát þessum aðilum að leggja okkur hjálparhönd” segir Árni með áherslu.
Samstarfsaðilar mikilvægur þáttur
“Eitt af mörgum ánægjulegum verkefnum hvers átaks eru vinna með samstarfsaðilum,fyrirtækjum sem selja Bleiku slaufuna og bleikar vörur í október. ,,Við leggjum okkur í líma við að heyra í sem flestum og halda uppi merkjum Bleiku slaufunnar. Það er dásamlegt að finna samstöðuna og stuðninginn í atvinnulífinu, heyra af viðburðum og öllu því góða sem verið er að gera málstaðnum í hag”.
Vandað er til verka
Auglýsing átaksins er ávallt frumsýnd á Opnunarhátíð Bleiku slaufunnar sem eins og áður segir verður í Háskólabíói 1. október. Skilaboðin og inntakið er alltaf skýrt en þarf að meitla til að það skili sér sem best. ,,Hjá Krabbameinsfélaginu er unnið svo gott starf, við leggjumáherslurnar og inntak vitundarvakningarinnar á hverju ári en svo taka auglýsingastofan og framleiðendur auglýsingarinnar við og myndgera. Það samtal hefst á vormánuðum en framleiðsla efnis hefst um leið og fólk kemur úr sumarfríi og þá hefst vinnan við að koma herferðinni á framfæri.”
Árni hlakkar til að opinbera Bleiku slaufuna í ár á Opnunarhátíðinni í Háskólabíói. ,,Þegar sá dagur rennur upp þá líður mér ávallt eins og hlaupara í spretthlaupi, kominn á fulla ferð í einstökum bleikum heimi góðvildar og samkenndar þar sem metnaðurinn til að hafa áhrif til góðs er öllu yfirsterkari”.
Hér er hægt er að kaupa miða á Opnunarhátíð Bleiku slaufunnar 2024.