Takk Guðni
Tengsl Krabbameinsfélagsins og forsetaembættisins hafa verið sterk í gegnum tíðina.
Frú Vigdís Finnbogadóttir varð verndari félagsins og frá árinu 2018 hefur félagið heimsótt Guðna Th. Jóhannesson árlega og fært honum fyrsta parið af Mottumarssokkum. Móttökurnar hafa alltaf verið afar góðar og stuðningur forsetans við átakið og starf félagsins ómetanlegur.
Guðni hefur í sinni embættistíð verið óþreytandi við að tala fyrir bættri lýðheilsu, forvörnum og heilsueflingu, einu meginmarkmiði Krabbameinsfélagsins. Það var því einstaklega vel við hæfi að áhersla átaksins væri á aukna hreyfingu, sérstakt hugðarefni Guðna, þegar hann tók við Mottumarssokkum í síðasta skipti í ár sem forseti Íslands.
Krabbameinsfélagið þakkar Guðna af öllu hjarta fyrir ómetanlegt samstarf og stuðning í gegnum árin.
Um leið óskar félagið Höllu Tómasdóttur, nýkjörnum forseta, velfarnaðar í starfi og hlakkar til samstarfs við hana.