Beint í efni

Takk fyr­ir sam­ver­una og stuðn­ing­inn

Það er óhætt að segja að gleði, samhugur og samstaða hafi ráðið ríkjum á opnunarviðburði Bleiku slaufunnar sem haldinn var í Þjóðleikhúsinu þann 28. september. Myndirnar sem hér fylgja segja allt um stemminguna.

Bleiki liturinn réð ríkjum á opnunarviðburðinum. Gestir kvöldsins voru vel með á nótunum og skörtuðu bleiku fyrir okkur öll. Húsið opnaði kl. 18:30 þar sem vinir Bleiku slaufunnar kynntu og seldu vörur til styrktar átakinu í Þjóðleikhúskjallaranum og gestir smelltu af sér skemmtilegum myndum í myndakassanum.

Á stóra sviðinu fór Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, stuttlega yfir starfsemi félagsins og mikilvægi Bleiku slaufunnar sem árverkni- og fjáröflunarátaks í baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

Hönnuðum Bleiku slaufunnar þeim Lovísu Halldórsdóttur Olesen (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR eftir Unni Eir) var þakkað kærlega fyrir þeirra mikilvæga framlag til bleikustu Bleiku slaufunnar frá upphafi. Myndband af hönnun slaufunnar.

Birnu Schram, sem leikstýrði auglýsingu herferðarinnar í ár, var þakkað fyrir sitt framlag. Birna missti móður sína úr krabbameini í fyrra og segir að verkefnið sé henni því afar kært og í raun innblásið af þeirri reynslu. Auglýsingin er með bleikum ljóma og sýnir máttinn í samstöðunni. Að því loknu var auglýsing átaksins frumsýnd sem sjá má hér. 

Sérstök hátíðarsýning var svo á leikverki Sigríðar Soffíu Níelsdóttur „Til hamingju með að vera mannleg“, Ástarjátningar til lífsins sem fjallar um þrautseigju, andlegan styrk og samfélag kvenna sem standa hver með annarri, en eitt meginþema Bleiku slaufunnar í ár er einmitt samstaða og máttur hennar. Hér segir Sigga Soffía okkur frá tilurð verksins.

Hér fyrir neðan sjáið þið nokkrar af myndum kvöldsins en á Facebooksíðu Bleiku slaufunnar getið þið nálgast enn fleiri myndir.

Þökkum öllum kærlega fyrir komuna.