Beint í efni

Kynn­ing á verk­efni nor­rænu krabba­meins­fé­lag­anna

Ráðleggingar til stjórnvalda um aðgerðir til að sporna gegn ofþyngd og offitu barna og könnun á stuðningi almennings

Þann 13. nóvember sl. kynntu norrænu krabbameinsfélögin ráðleggingar til stjórnvalda um aðgerðir til að sporna gegn offitu og ofþyngd barna á Norðurlöndum. Kynningin fór fram í danska þinginu í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn.

Ráðleggingarnar byggja á niðurstöðum yfirgripsmikillar og kerfisbundinnar yfirferðar á vísindarannsóknum. Þær eru í fimm liðum sem lúta að:

  • efnahagslegum aðgerðum,
  • reglum um markaðssetningu óhollra matvæla og drykkja,
  • reglum um merkingar matvæla og
  • stefnumótun til að stuðla að hollara mataræði og
  • aukinni hreyfingu í skólum.
  • Ráðleggingarnar má lesa hér (enska).

Fjöldi barna og unglinga með ofþyngd eða offitu fer vaxandi á Norðurlöndunum og hæst er hlutfallið hérlendis; 25% íslenskra barna eru í ofþyngd eða með offitu.

Börn sem eru of þung eða með offitu eru í verulega aukinni hættu á að vera í sömu stöðu á fullorðinsárum og það eykur hættuna á ýmsum sjúkdómum, meðal annars krabbameinum.

Vegna þessa hvetja norrænu krabbameinsfélögin stjórnvöld til að grípa til aðgerða sem unnið geta á móti þessari þróun og minna á að ábyrgðin á því að fyrirbyggja ofþyngd og offitu liggur að miklu leyti hjá þeim.

Verkefnið, ,,Common Actions for the Prevention of Overweight and Obesity among Children in the Nordic countries (CAPOC)“ er samstarf krabbameinsfélaganna í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og á Íslandi og er fjármagnað af Samtökum félaganna (NCU).

Njóta ráðleggingarnar stuðnings almennings?

Á ráðstefnunni voru einnig kynntar helstu niðurstöður kannana sem gerðar voru í hverju landi með það að markmiði að fá fram viðhorf landsmanna til þess ef stjórnvöld færu í ofangreindar aðgerðir.

Einnig var fólk spurt út í hver það telur að beri ábyrgð á að fyrirbyggja ofþyngd og offitu barna og kom fram að 58% Íslendinga telja stjórnvöld bera þá ábyrgð.

Pallborð fulltrúa stjórnvalda

Að lokinni kynningu á verkefninu sátu fulltrúar stjórnvalda í öllum löndunum fyrir svörum. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda var Ásthildur Knútsdóttir, skrifstofustjóri Lýðheilsu og vísinda í Heilbrigðisráðuneytinu.

Framkvæmdastjórar norrænu krabbameinsfélaganna
Fulltrúar norrænu krabbameinsfélaganna
Panell