Beint í efni
Mynd af Hrefnu Stefánsdóttur, starfsmanni Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins, Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins, Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins og Árna Reyni Alfredssyni, forstöðumanni fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.

Mynd­ar­leg­ur styrk­ur frá Bláa Lón­inu

Bláa Lónið studdi Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins með þátttöku í átaksverkefninu Bleiku slaufunni.

Líkt og fyrri ár rann hluti af sölu varasalva Bláa Lónsins í október síðastliðnum til Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins. Bláa Lónið hefur veitt verkefnum Krabbameinsfélagsins stuðning allt frá árinu 2015 og er þakklátt fyrir að geta stutt við mikilvægt verkefni með þessum hætti.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, afhenti Krabbameinsfélaginu 4.251.411 króna sem söfnuðust í átakinu.

„Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins vinnur gríðarmikilvægt starf sem er samfélaginu öllu til góða og það er okkur einlæg ánægja að geta veitt jafn mikilvægu samfélagsverkefni fjárstuðning" segir Grímur.

„Stuðningur og velvild Bláa Lónsins í gegnum árin hefur verið okkur mjög mikilvægur. Hann gerir okkur kleift að styðja við enn fleiri rannsóknir til að ná sem mestum árangri í baráttunni við krabbamein á Íslandi“ segir Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.

Um Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins

Tilgangur sjóðsins er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, meðal annars með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. Vísindafólk hefur lýst því að stofnun Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins hafi verið bylting í krabbameinsrannsóknum hér á landi.

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá 2017-2024, veitt 96 styrki, til 58 rannsókna að alls 562 milljónum króna. Bláa Lónið hefur veitt verkefnum Krabbameinsfélagsins stuðning allt frá árinu 2015 og hefur frá árinu 2020 stutt Vísindasjóð félagsins sérstaklega um rúmlega 20 milljónir króna og verið þannig einn af helstu stuðningsaðilum sjóðsins.

Nánari upplýsingar um sjóðinn og rannsóknirnar sem styrktar hafa verið má nálgast hér: