Beint í efni

Hlýja og sam­kennd ein­kenndu Styrk­leik­ana á Eg­ils­stöð­um

Styrkleikarnir voru haldnir í annað sinn á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum 31. ágúst til 1. september.

,,Við erum þakklát fyrir þá samstöðu og hlýju sem við fundum svo sterkt fyrir á Styrkleikum Krabbameinsfélagsins sem haldnir voru á Egilsstöðum 31. ágúst til 1. september. Veðrið lék við gesti, þó það blési svolítið hressilega á köflum eins og gerir svo oft í lífinu sjálfu" segir Hrefna Eyþórsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Austfjarða. ,,Í litlum bæjarfélögum er samstaðan áþreifanleg þar sem allir þekkja alla og vita hverjir standa í baráttunni".

Krabbameinsfélag Austfjarða og Krabbameinsfélag Austurlands voru gestgjafar og eiga þau mikinn heiður skilið fyrir skipulag og framkvæmd leikanna.

Á Styrkleikunum tökum við höndum saman og sýnum þeim sem greinst hafa með krabbamein stuðning. Einstaklingar skrá sig í lið sem skiptist á að ganga, skokka eða hlaupa fyrirfram skilgreinda leið, með boðhlaupskefli, í heilan sólarhring sem er táknrænt fyrir það að krabbamein tekur ekki pásu.

Fjögur liðin tóku þátt og í þeim voru um 500 manns sem gengu tæplega 4.800 kílómetra. Tæpar tvær milljónir söfnuðust með áheitum sem renna til Krabbameinsfélags Íslands.

Styrkleikarnir eru haldnir að alþjóðlegri fyrirmynd og eru árlega haldnir á yfir 5000 stöðum í 30 löndum en þetta eru þeir fjórðu sem haldnir eru á Íslandi. Fyrstu leikarnir voru á Selfossi árið 2022 og aftur þar árið 2023, auk þess sem leikarnir voru þá einnig haldnir í fyrsta sinn á Egilsstöðum. Næstu Styrkleikar fara fram á Ljósanótt, Reykjanesbæ, 6.-7. september. Gengið verður á Keflavíkurvelli (íþróttavelli) og verða leikarnir settir kl. 15:00.

Sjá nánari upplýsingar um Styrkleikana.

Höttur
Styrkleikar