Hlaupið til góðs í Gamlárshlaupi ÍR
Hlaupið í ár var samstarfverkefni frjálsíþróttadeildar ÍR og Krabbameinsfélagsins og gátu þátttakendur því bæði hlaupið í þágu eigin heilsu og til góðs.
Það er óhætt að segja að gleðin hafi ráðið ríkjum í Gamlárshlaupi ÍR sem er skemmtileg blanda af keppnishlaupi, áramótaskemmtun og fjölskyldusamveru á seinasta degi ársins. Auk hefðbundinna keppnisbúninga mættu fjölmargir til leiks íklæddir grímubúningum sem setti skemmtilegan svip á hlaupið. Þátttaka í hlaupinu var afar góð og hlupu tæplega 1.700 manns 10 km (tímataka) og tæplega 250 manns í 3 km skemmtiskokki.
Alls söfnuðust 616.000 kr. til styrktar starfsemi Krabbameinsfélaginu í hlaupinu. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn og hvetur alla þá sem tóku þátt í hlaupinu, sem og aðra, til að hreyfa sig reglulega.
Hreyfing er allra meina bót og er hægt að draga úr líkum á krabbameinum með reglulegri hreyfingu. Mælt er með að stunda rösklega hreyfingu í að lágmarki 30 mínútur á dag.
Sjáumst í Gamlárshlaupi ÍR að ári.