Beint í efni
Myndskreyting með rannsóknaívafi

Fram­far­ir í krabba­meins­rann­sókn­um

Eitt af markmiðum Krabbameinsfélagsins er að vera í lykilhlutverki í krabbameinsrannsóknum með umhyggju, áreiðanleika og framsækni að leiðarljósi.

Það er m.a. gert í starfi Rannsóknaseturs - Krabbameinsskrár og með framlögum til vísindarannsókna úr  Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins, samkeppnissjóðs sem er stærsti styrktarsjóður krabbameinsrannsókna á landsvísu. 

Frá stofnun Vísindasjóðsins árið 2015 hefur í átta úthlutunum verið veittir 98 styrkir að  upphæð samtals 562.400.000 kr., til 58 rannsókna. Það eru því orðin vatnaskil í krabbameinsrannsóknum á Íslandi og Krabbameinsfélagið ætlar sér að vera áfram í fararbroddi. 

Styrkir og hlutverk Vísindasjóðs í krabbameinsrannsóknum

Þriðjudaginn 24. september næstkomandi er Alþjóðadagur krabbameinsrannsókna. Af því tilefni heldur Krabbameinsfélagið málþing þar sem kynntar verða nokkrar af þeim mikilvægu rannsóknum sem Vísindasjóðurinn hefur styrkt ásamt því að fjallað verður um sjóðinn og hlutverk hans í krabbameinsrannsóknum á Íslandi.  Krabbamein varða okkur öll og framfarir verða fyrst og fremst í gegnum vísindastarf.

Á málþinginu verða þrjár rannsóknir kynntar með erindum og fleiri á veggspjöldum auk eins verkefnis, sem snýr að bættri þjónustu við börn með krabbamein. Það verkefni hefur sérstöðu í styrkveitingum úr sjóðnum, þar sem ekki er um eiginlega vísindarannsókn að ræða. Verkefnið er styrkt fyrir tilstuðlan Kristínar Björnsdóttur, fyrrverandi starfsmanns Sameinuðu þjóðanna sem arfleiddi Krabbameinsfélagið að stórum hluta eigna sinna til að styðja við rannsóknir á krabbameinum hjá börnum og umönnun þeirra.

Málþingið er stór stund fyrir okkur öll sem komum að þessum rannsóknum og mikil tilhlökkun að fræðast um niðurstöðurnar og vinna áfram með þær.

Rannsóknirnar og verkefni sem kynnt verða eru:

Áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis á andlega heilsu.
Hefur það sálræn áhrif að vita að maður er í aukinni áhættu á að þróa með sér krabbamein í framtíðinni? Er gott að vita það, vill maður vita það eða er það  streituvekjandi?  

Nýjar nálganir við fylgiröskunum krabbameins.
Kynntar verða tvær rannsóknir.
Annars vegar rannsóknin; Prófun á gagnvirku ákvörðunartæki sem aðstoðar karlmenn, sem greinst hafa með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein, við ákvörðunartöku um meðferðarleið
Búið er að hanna tæki sem hjálpar þeim við  að taka ákvörðun um meðferð en er tækið gagnlegt?

Hinsvegar er það rannsóknin; Seinkun aldursklukkunnar: Dregur ljósameðferð úr flýttri líffræðilegri öldrun hjá konum eftir brjóstakrabbameinsmeðferð?
Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem hefur greinst með krabbamein hefur hærri líffræðilegan lífaldur en fólk sem ekki hefur greinst með krabbamein. Er mögulega hægt að koma í veg fyrir það með ljósameðferð?

Verkefni sem tengist börnum með krabbamein:
Varðveisla frjósemi hjá stúlkum sem fá krabbameinsmeðferð á barns- eða unglingsaldri.
Hvernig sjáum við til þess að stúlkur sem þurfa að undirgangast krabbameinsmeðferð eigi möguleika á að verða mæður í framtíðinni? Hvaða hindranir eru í veginum og hvernig er hægt að yfirvinna þær?

Grunnrannsóknir lykillinn að árangrinum

Vísindasjóðurinn styrkir líka grunnrannsóknir, rannsóknir á undirliggjandi líffræðilegum þáttum sem tengjast myndun og þróun krabbameina. Grunnrannsóknir eru forsenda þess að skilja eðli krabbameina og þróa nýjar meðferðir. Nokkrar þeirra verða kynntar á veggspjöldum á 4. hæð. 

Við hvetjum alla sem láta sig framfarir í krabbameinsrannsóknum og krabbameinsmeðferðum varða, að koma á málþingið til að fræðast og gleðjast yfir þeim framförum sem átt hafa sér stað fyrir tilstilli rannsóknanna. Dagurinn er líka gott tækifæri til að undirstrika mikilvægi rannsóknanna, vísindamannanna sem stunda þær og styrktaraðila.

Hér má sjá dagskrá málþingsins