Blessuð sólin elskar allt
Við ræddum við Jennu Huld Eysteinsdóttur, húðlækni um sólina, sólarvarnir, húðkrabbamein og afhverju við eigum að vernda húðina fyrir sólinni.
Nú þegar sumar og sól er á næsta leyti er mikilvægt að huga að sólarvörnum ásamt því að þekkja vel sína húðbletti og fara reglulega til húðlæknis.
Rannsóknir sýna að húðkrabbamein leggst einkum á húðsvæði sem verða fyrir miklu sólarljósi. Þar er sortuæxli alvarlegasta gerð húðkrabbameina sem er auðvelt að lækna, greinist það á byrjunarstigi en getur verið erfitt við að eiga nái það að dreifa sér.
Sólarbrúnka er varnarkerfi líkamans
Jenna byrjar viðtalið á ræða geisla sólarinnar sem hafa yljað mörgum síðustu daga. Hún segir sólina með tvenns konar geisla sem fara mislangt ofan í húðina, þar sem þeir valda skemmdum. Brúni liturinn sem kemur á húðina segir hún að sé varnarkerfi líkamans sem reynir að verja frumurnar fyrir geislum sólarinnar. ,,Ef við förum óvarlega í sólinni, safnast þessar skemmdir saman og frumurnar geta ekki hreinsað sig” útskýrir hún sem aftur gerir það að verkum að þegar við eldumst þá geta þær farið að koma fram sem húðkrabbamein.
Húðin eldist hraðar
,,Húðin á unga fólkinu, óvarin í sól, eldist líka hraðar, jafnvel þó þau taka ekki eftir því, séu með jafna og unga húð” segir Jenna Huld með áherslu. ,,En merki um öldrum húðarinnar er þegar hún er komin með varanlegar litabreytingar, hvíta og brúna bletti, fer að þykkna eins og leður og er fljótari að mynda bletti og hrukkur.”
Börn og sól
Þá segir hún mjög mikilvægt að foreldrar verji börn sín fyrir sólinni því búið sé að sýna fram á að það sé verulegur áhættuþáttur að fá sortuæxli síðar á lífsleiðinni ef barn eða unglingur brennir í sól. ,,Við mælum með minnst 50 spf vörn fyrir börn og að hafa þau í sundgalla sem ver þau betur” Dæmi um hve slíkar varnir hafi skilað bendir hún á að í Ástralíu og Nýja Sjálandi hafi gengi húðkrabbameins verið hæst í heimi en með áróðri og reglum um verndum húðar barna í sól sé þetta að snúast við.
Sól og D-vítamín
Aðspurð segir hún að í raun þurfum við ekki nema 15-30 mínútur án sólarvarnar á dag til að fá hinn daglega D-vítamín skammt. ,,Eftir það ætti fólk að bera á sig 30 spf vörn hið minnsta og bera vel af henni á 4-6 klst fresti.” Hún segir að flestir noti alltof lítið af sólarvörn eða um 25-50% af því magni sem á að nota. Og að fólk sem dvelji við strönd til að mynda í Nauthólsvík, við vatn eða í sundi þurfi að bera á sig á 1 til 2 klukkustunda fresti á þá staði sem séu útsettir fyrir sól, eins og handleggi, bringu, bak og andlit.
Besta sólarvörnin
,,Sólin er sterkust milli kl. 10 og 16 á daginn. Því nær miðbaug því sterkari er hún og því mjög mikilvægt að bera góða sólarvörn á þessum tíma” segir Jenna Huld og bætir við ,,svo þarf líka að hafa í huga að sólin er meiri, geislarnir sterkari til fjalla. Endurvarp frá snjó, sjó og sandi getur verið lúmskt.” Brosandi bendir hún á að besta sólarvörnin sé að sitja í skugga og klæða sólina af sér sem ekki henti öllum. ,,En fólk er jafn berskjaldað fyrir henni hvort sem það er að vinna í garðinum eða liggur í sólbaði. Allar þær aðstæður sem geislar sólarinnar koma við sögu er því mikilvægt að nota góða sólarvörn.”
Tegundir húðkrabbameina
Vitað er um margar tegundir húðkrabbameina og segir Jenna Huld að grunnfrumu- og flöguþekjandi krabbamein greinist mest hjá eldra fólki. Það sé staðbundið í húðinni og auðvelt að meðhöndla það. ,,Sortuæxli er lúmskara og getur dreift sér fljótt í önnur líffæri og það er óhugnanlegt hve mikið af yngra fólki er að greinast með sortuæxli og þar eru konur í meiri hættu”. Hún segir að árin 1990 - 2005 hafi verið mikil aukning hjá ungum konum tengt var við ljósabekki á þeim tíma en einn tími í ljósabekk eða ljósum eykur líkurnar á húðkrabbameini um 20% miðað við einstaklinga sem nota ekki ljósabekki. ,,Frá 2010 erum við hinsvegar að sjá fækkun nýrra tilfella, hvort það sé minni notkun ljósabekkja að þakka getum við ekki svarað með vissu en trúum við að svo sé?” Spyr hún og bætir við ,,90% af húðkrabbameinum orsakast af UV geislum hvort sem það eru geislar frá sól eða ljósabekkjum, konur eru í meiri hættu á að greinast með sortuæxli og þær greinast einnig yngri en karlarnir sem er rannsóknarefni útaf fyrir sig”.
Hvað er til ráða?
Jenna Huld segir það hafa margsýnt sig að góð sólarvörn skipti sköpum og biðlar til fólks að láta ekki blekkjast af óábyrgri umræðu um sólarvarnir því hún verji húðina bæði gegn ótímabærri öldrun og gegn húðkrabbameinum. Þá sé mikilvægt að þekkja sína húðbletti vel því ef það koma frumubreytingar þá ætti fólk að sjá það eftir þrjá til fjóra mánuði. ,,Það getur gefið falskt öryggi að koma á ársfresti í skoðun til húðlæknis, lang best er að skoða húðina og þekkja sína bletti vel. Það ásamt sólarvörnum gefur bestu vörnina og er árangursríkast.”
Jenna Huld bendir á staðreyndir um sólarvarnir:
- Þær eru ekki krabbameinsvaldandi. Þessi fullyrðing kom eftir að ein rannsókn gaf þetta í skyn en þegar það var farið að skoða greinina betur þá voru þessir einstaklingar sem notuðu meiri sólarvörn sömu einstaklingar sem ferðuðust meira til sólarlanda og voru meira í sólinni, þannig að það var í rauninni magn sólargeisla sem orsökuðu það að þessir einstaklingar voru í meiri hættu á að fá sortuæxli, ekki að þeir báru meira á sig sólavörn. Margar vel hannaðar rannsóknir sýna aftur á móti að sólarvarnir verja okkur einmitt mjög vel gegn bæði sortuæxlum og öðrum húðkrabbameinum.
- Það eru til tvær gerðir af sólarvörnum, steinefna sólarvarnir sem innihalda þá yfirleitt zink oxide eða titanium dioxide, og svo kemískar sólarvarnir sem innihalda þá yfirleitt aminobenzoid sýru, avobenzone, octisalate, octocrylene og oxybenzone. Oxybenzone hefur hlotið verstu útreiðina í fjölmiðlum þar sem það kom út rannsókn árið 2017 á rottum sem sýndi fram á hormónatruflanir. Þá var rottunum gefið oxybenzone í gegnum munn, þeas sett í fæðuna þeirra. Það hafa aftur á móti engar rannsóknir á mannfólki staðfest þessar fullyrðingar og ef við yfirfærum þessa rannsókn yfir á mannfólkið þá þyrfti einn einstaklingur að bera á sig daglega sólarvörn með oxybenzone í 277 ár til að það væri sambærileg hætta á truflun á hormónabúskapnum. Ef þú hefur áhyggjur af þessu getur þú auðveldlega forðast sólarvarnir með þessu innihaldsefni en þá þarftu einnig að forðast hárspray, naglalökk og plastvörur sem eru oft með oxybenzone.
Lokaorð Jennu Huldar og ráðlegginar húðlækna eru skýr:
Notaðu sólarvörn og ekki fara í ljós!
Tölulegar upplýsingar frá Krabbameinsfélaginu varðandi sortuæxli
Hlutfall sortuæxla af öllum krabbameinum á Íslandi eru 2% fyrir karlmenn og 3% fyrir konur. Á tímabilinu 2018-2022 greindust alls 48 einstaklingar með sortuæxli, eða 22 karlmenn og 26 konur. Á sama tímabili létust 12 einstaklingar vegna meinsins. Meðalaldur við greiningu er 66 ára fyrir karlmenn og 58 ára fyrir konur.
Þegar fjöldi greininga frá upphafi skráningar árið 1955 er skoðaður má sjá að stöðug aukning var á nýgengi sortuæxla, fyrir bæði kyn, til ársins 2005 en þá tók það að lækka aftur. Breytingarnar má rekja til aukningar á greiningum í kjölfar árvekniátaks um 1990 en einnig til breytinga á lífstílsþáttum sem lúta að sólböðum og ljósabekkjanotkun.