Um átakið
Í Mottumars, árlegu átaki Krabbameinsfélagsins, tökum við höndum saman í vitundarvakningu um krabbamein hjá körlum og öflum um leið fjár fyrir mikilvægri starfsemi Krabbameinsfélagsins.
Í ár er áhersla Mottumars á tenginguna á milli lífsstíls og krabbameina. Krabbameinsfélagið vill í Mottumars vekja athygli á að bæði óheilbrigðar og heilbrigðar lífsvenjur verða til á löngum tíma. Skilaboðin eru einföld. Lífsstíll er ekkert til að grínast með, hann er þvert á móti dauðans alvara.
Lífstíll skiptir máli
Að minnsta kosti þriðja hvert krabbameinstilvik tengist lífsstíl. Þó að enginn sé öruggur er hægt að draga úr líkum á krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl. Þar getum við svo sannarlega gert betur og tilfinningin er að of margir karlmenn taki lífsstíl sinn ekki nógu alvarlega. Því viljum við breyta.
Óheilsusamlegur lífsstíll er summan af mörgum litlum, slæmum ákvörðunum sem teknar eru hversdagslega yfir langan tíma. Hver og ein ákvörðun vegur ekki þungt en samanlagt geta þær skaðað heilsuna og meðal annars aukið líkurnar á krabbameinum.
Hvað kemst þú langt á þínum lífsstíl?
Það er margt hægt að gera til að draga líkum á krabbameinum, meðal annars með því að hreyfa sig reglulega, borða heilsusamlegan mat, að reykja hvorki né nota tóbak, takmarka áfengisneyslu eða sleppa henni, viðhalda hæfilegri líkamsþyngd og vernda húðina fyrir skaðlegum geislum sólar.
Karlmenn og krabbamein
Þriðji hver karlmaður greinist með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Samkvæmt tölfræðilegri samantekt frá árunum 2019-2023 greindust 1.017 karlmenn árlega með krabbamein og á sama tímabili létust 335 karlmenn árlega úr krabbameinum.
Hvernig er söfnunarfé varið?
Allur ágóði af sölu Mottumarssokkunum rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að færri fái krabbamein, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins – með og eftir krabbamein. Öll starfsemi félagsins byggir á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og Mottumars er ein af lykilstoðunum.
Þitt framlag styður meðal annars við:
- Endurgjaldslausa ráðgjöf og stuðning, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa, við þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra.
- Íslenskar rannsóknir á krabbameinum sem snúa meðal annars að orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.
- Fjölbreytta forvarnafræðslu, námskeið og starfsemi sem miðar meðal annars að því að draga úr líkum á krabbameinum og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein.
- Afnot af íbúðum fyrir sjúklinga og aðstandendur, hagsmunagæslu og liðsinni á 6 þjónustuskrifstofum um land allt.