Beint í efni

Þegar ást­vin­ur deyr úr krabba­meini

Sorgarferli aðstandenda byrjar oft löngu áður en ástvinur deyr vegna krabbameins.

Í gegnum veikindaferlið upplifa margir aðstandendur sorg sem tengist til að mynda líkamlegum og sálrænum breytingum sem geta orðið hjá þeim sem er veikur og breytingum á sambandinu við hann.  Í sumum tilvikum gætu veikindin þó hafa ágerst hratt frá greiningu og upplifunin því verið eins og viðkomandi hafi dáið skyndilega. Hvernig sem aðdragandanum hefur verið háttað er sorgin erfið reynsla að ganga í gegnum.  Líðanin getur verið sveiflukennd á milli daga og jafnvel klukkutíma. Það er því mikilvægt að sýna sér þolinmæði, hlúa að sér og muna að allar tilfinningar eru eðlilegur partur af sorginni. 

Sorginni hefur oft verið líkt við öldudal þar sem stundum flæðir að og fólki finnst það varla ná andanum. En svo koma dagar þar sem flæðir aftur frá og líðanin er betri. Að minnsta kosti um stund.

Þó að ástvinur þinn, og sorgin tengt því að hafa misst hann, verði alltaf hluti af þér, verða með tímanum þær erfiðu tilfinningar sem tengjast sorginni ekki eins sársaukafullar. Í lang flestum tilvikum nær fólk að aðlagast breyttri tilveru og upplifa gleði fyrir lífinu á nýjan leik. Það er hins vegar misjafnt hversu langur tími líður þar til fólki fer að líða betur og geta ýmsir þættir haft áhrif á það. Í rauninni er ekki hægt að segja að sorgin sé eitthvað sem hverfi frá fólki fyrir fullt og allt en margir hafa lýst því þannig að með tímanum er eins og plássið í kringum sorgina stækki og hún hætti að lita allt lífið. Það er mikilvægt að þú minnir þig á þetta og sýnir þér þolinmæði og mildi.

Við hjá Krabbameinsfélaginu erum til staðar þegar á þarf að halda, ráðgjafar okkar eru fagaðilar; sálfræðingar, félagsráðgjafar og hjúkrunarfræðingar. Markmið okkar er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi við breyttar aðstæður í lífinu, veita stuðning og nauðsynlegar upplýsingar.

Þjónustan er öllum opin og hægt er að koma án þess að gera boð á undan sér.

Viðbrögð við missi

Sumir upplifa sterkar og erfiðar tilfinningar við andlát ástvinar að þær virðast óbærilegar. Aðrir upplifa mikinn dofa og eiga erfitt með að meðtaka þá staðreynd að ástvinurinn sé dáinn.

Viðbrögð í sorginni geta markast af ólíkum þáttum eins og

  • sambandinu sem þú áttir við hinn látna
  • hvort andlátið var fyrirséð eða ekki
  • hvernig ástvini þínum leið í aðdraganda andlátsins
  • fyrri reynslu þinni af dauðsfalli

Óskin um að þið hefðuð fengið lengri tíma saman og eftirsjá vegna einhvers sem þú vildir hafa gert eða sagt, er upplifun sem margir tengja við. Sumir finna fyrir létti sem tengist því að ástvinur þeirra þurfi ekki að þjást lengur.

Það er engin líðan rétt eða röng þegar kemur að sorginni. Líðan þín gæti verið sveiflukennd á milli daga eða jafnvel verið mjög breytileg yfir daginn. Einn daginn gæti þér liðið eins og þú sért að ná betra jafnvægi en næsta dag fundið fyrir mikilli depurð og einmanaleika. Það er eðlilegt að tilfinningarnar sveiflist á þennan hátt.

Þín líðan

Enginn annar getur skilið til fulls hvernig þér líður og hvað þú ert að fara í gegnum. Hér er því aðeins hægt að fjalla um það sem algengt er að fólk upplifi í sorginni. Þú gætir fundið fyrir einhverju af því sem aðrir hafa tjáð eða jafnvel upplifað það allt. Það gæti líka verið að þú finnir fyrir sorginni á allt annan hátt.

Líðan sem algengt er að fólk lýsi er meðal annars:

  • Margir upplifa sjokk og mikinn doða fyrstu dagana, vikurnar eða jafnvel mánuðina eftir að ástvinur deyr. Þetta getur alveg eins gerst þótt andlátið hafi verið fyrirséð. Sumir vilja meina að doðinn hafi það hlutverk í sorginni að verja okkur fyrir öllum sterku og erfiðu tilfinningunum þar til við erum tilbúin til að byrja að meðtaka þær og vinna úr þeim.

  • Það er ekki óalgengt að fólk finni fyrir reiði eftir að ástvinur deyr. Sumir hafa lýst því hvernig þessi reiði kom þeim sjálfum á óvart. Reiðin er hins vegar eðlileg tilfinning í sorginni og getur beinst að ólíkum aðilum.

    Þú gætir upplifað reiði gagnvart:

    • Læknum eða heilbrigðisstarfsfólki fyrir að hafa ekki getað læknað ástvin þinn.
    • Ástvini þínum fyrir að hafa skilið þig eina/einan eftir.
    • Fólkinu í kringum þig fyrir að sýna þér og líðan þinni ekki skilning eða fyrir að hafa ekki komið á einhvern hátt nógu vel fram við þann sem að lést meðan hann var á lífi.
    • Guði eða örlögum þínum.
  • Fólk getur upplifað sektarkennd af ólíkum ástæðum eftir að ástvinur deyr. Þú gætir burðast með hugsanir um að ef þú hefðir sagt eða gert eitthvað á annan hátt hefði ástvinur þinn ef til vill ekki dáið. Ef þér líður svona gæti verið gott að fá að ræða við lækna eða hjúkrunarfræðinga sem önnuðust um hann. Þú gætir líka rætt við heimilislækninn þinn.

    Það gæti líka verið að þú upplifir eftirsjá vegna einhvers sem þú sagðir eða sagðir ekki við ástvin þinn á meðan hann var á lífi,

    Sumir upplifa sektarkennd yfir að hafa upplifað létti eftir að ástvinurinn dó eða tengt því að hafa óskað þess að allt álagið og erfiðið færi að taka enda.

    Sektarkennd er mjög oft fylgifiskur sorgarinnar og með tímanum dregur yfirleitt úr þessari erfiðu tilfinningu. Það er mikilvægt að vinna í að sleppa af henni tökunum og muna að við erum öll mannlegar verur sem getum ekki alltaf brugðist við eins og við hefðum kosið í öllum aðstæðum.

  • Margir upplifa mikinn einmanaleika eftir að ástvinur deyr. Einmanaleikinn getur verið yfirþyrmandi og þrálát tilfinning. Fólk lýsir því að einmanaleikinn geti verið til staðar jafnvel þegar það er einhvers staðar að útrétta eða er umkringt fjölskyldu og vinum. Það mun taka tíma að venjast því að hafa ekki ástvin þinn nálægt þér lengur. Þér gæti fundist þú sjá ástvini þínum bregða fyrir og manst svo að hann er ekki hérna lengur. Þú gætir staðið þig að því að tala við manneskjuna sem dó og þú gætir jafnvel fundið að það hjálpi þér dálítið. Það er því gott að vita að það er ekkert að því að tala við látinn ástvin. Allt sem að getur hjálpað er af hinu góða.

    Einmanaleikinn getur líka legið djúpt í þeirri tilfinningu að enginn skilji nákvæmlega það sem þú ert að fara í gegnum og þú sért ein/einn með þína líðan.

  • Kvíði er önnur algeng og eðlileg tilfinning sem kemur gjarnan upp þegar ástvinur deyr. Til að mynda gætir þú fundið fyrir kvíða og vanmætti tengt því að þurfa að gera hluti sem ástvinur þinn sá alltaf um að gera. Þú gætir kviðið því að þú munir ekki spjara þig án ástvinar þíns eða kviðið fyrir að mæta aftur til vinnu eftir andlát hans.

  • Depurðin og sorgin sem þú finnur fyrir eftir að ástvinur þinn er látinn getur verið yfirþyrmandi. Hjá sumum kemur þetta fram í líkamlegum einkennum. Depurðin getur rænt þig lönguninni til að fara út og hitta vini þína, fara í vinnuna eða jafnvel rænt þig lönguninni til að fara fram úr rúminu. Sumir verða þunglyndir og hætta að hugsa nægilega vel um sig sjálfa. 

  • Þú gætir fundið fyrir sterkri löngun til að hitta, tala við eða snerta ástvin þinn aftur. Fólk upplifir oft yfirþyrmandi þrá eftir að fá manneskjuna sem dó til baka. Þessar tilfinningar geta lamað fólk og komið í veg fyrir að öðrum hlutum sé komið í framkvæmd. Suma dreymir manneskjuna sem er látin og finna svo örvæntinguna hellast yfir þegar þeir vakna og gera sér grein fyrir því að hún er ekki lengur til staðar. Fyrir suma verða þessar tilfinningar svo erfiðar að þeim líður eins og lífið sé tilgangslaust. Það er eðlilegt að upplifa vonleysi og  og  þú getir ekki haldið áfram er mikilvægt að þú leitir eftir hjálp og stuðningi.

  • Margir finna að oft er stutt í grátinn eftir að ástvinur deyr. Gráturinn og tárin eru eðlileg viðbrögð við söknuðinum og öllum tilfinningunum sem krauma hið innra. Fólk lýsir því gjarnan hvernig tárin geta brotist fram við aðstæður sem síst er að vænta og oft mörgum mánuðum eða jafnvel árum seinna. Ákveðið lag í útvarpinu, lítil smáatriði í hversdagslífinu eða ákveðnir staðir sem tengjast þér og ástvini þínum geta til dæmis oft kallað þetta fram. Enda þótt þér finnist þú ef til vill sífellt vera grátandi er mikilvægt að muna að um er að ræða heilbrigð viðbrögð og útrás við sorginni sem þú ert að fara í gegnum.

    Sumum líður illa yfir því að geta ekki grátið. Mundu að það þýðir samt ekki að þú syrgir ekki ástvin þinn. Mikilvægt er að muna að allir þurfa að fá að syrgja á sinn hátt og að allt hefur sinn tíma. Oft er dofinn yfirráðandi fyrstu vikurnar og jafnvel mánuðum eftir að ástvinur deyr og ef til vill er viss hluti af þér sem hefur ekki meðtekið missinn. Sumir eiga erfitt með að gráta með öðrum en finna tárin brjótast fram til að mynda á keyrslu eða í sturtunni.

  • Sumir hafa lýst því hvernig þeir fundu fyrir létti þegar ástvinur þeirra dó. Þetta er tilfinning sem gæti sérstaklega komið fram hafi ástvinurinn glímt við veikindi í langan tíma, þurft mikla umönnun eða haft einkenni vegna sjúkdómsins sem erfitt var að meðhöndla. Þegar einhver nákominn þér þjáist er eðlilegt að óska þess að þjáningin taki enda. Reyndu því að sleppa tökum á sektarkenndinni, sé hún er til staðar.

Líkamleg einkenni

Margir finna fyrir líkamlegum einkennum eftir að ástvinur deyr. Þessi einkenni geta hrætt fólk og þá er gott að minna sig á að nokkuð algengt er að slíkt sé hluti af sorginni. Þetta geta verið einkenni á borð við

  • Erfiðleikar með svefn.
  • Yfirþyrmandi þreyta.
  • Léleg einbeiting.
  • Hjartsláttartruflanir.
  • Lítil matarlyst.

Ef líkamleg einkenni eru viðvarandi í eina eða tvær vikur er ráðlegt að leita til læknis.

Erfitt samband

Hafi samband þitt við þann sem lést verið erfitt og flókið gæti verið að þú finnir ekki fyrir neinu af því sem hér hefur verið lýst eða að það komi þér í opna skjöldu hversu sterkar tilfinningar brjótast fram.

Allt eru þetta eðlileg viðbrögð við því að missa ástvin. Mundu að þú ert ekki einn/ein um að líða svona.

Vert að reyna

Jafnvel þótt líðan þín geti verið erfið og sársaukafull eru allar þær tilfinningar sem þú finnur fyrir fullkomlega eðlilegar í þessum aðstæðum. Jafnvel þótt enginn geti látið sársaukann og angistina hverfa, er vert að reyna ýmislegt til að hjálpa þér í sorginni sem öðrum hefur þótt hjálpa sér. Dæmi um það er:

  • Tala við manneskjuna sem er látin.
  • Tala við fjölskyldu og vini.
  • Leita til stuðningshópa.
  • Regluleg hreyfing.
  • Rækta trú eða andlegt líf.
  • Skrifa niður eða halda dagbók um það sem er að brjótast um í þér hverju sinni.

Að halda áfram

Flestir sem syrgja finna að með tímanum fara góðu dagarnir að verða fleiri en þeir slæmu. Tilfinningarnar verða ekki eins yfirþyrmandi og auðveldara er að horfa til framtíðar. Þú átt enn erfiðar stundir en þeim fer fækkandi eftir því sem tíminn líður.

Það er mismunandi hvenær fólk treystir sér til að mæta til vinnu eftir fráfall ástvinar. Gott gæti verið að ræða við vinnuveitanda um líðan þína og hvernig þér þætti best að haga vinnunni. Ef til vill þætti þér gott að geta unnið heima við eða að byrja í minna vinnuhlutfalli þegar þú snýrð aftur til vinnu.

Dagar sem hafa þýðingu fyrir þig og ástvin þinn eins og afmælisdagar, brúðkaupsafmæli og hátíðisdagar geta verið mjög erfiðir. Sérstaklega fyrsta og jafnvel annað árið eftir að ástvinur deyr. Með tímanum verða tilfinningarnar sem blossa upp og tengjast þessum dögum minna yfirþyrmandi. Mörgum finnst gott að gera eitthvað sérstakt eða táknrænt til að minnast ástvinarins, til dæmis á afmælisdegi hans, hátíðisdögum eða á öðrum dögum sem að tengjast honum.

Mörgum reynist erfitt að mæta í veislur eða aðrar samkomur. Ef það á við um þig, gæti verið gott að staldra stutt við til að byrja með eða að spyrja hvort þú megir taka einhvern með þér sem þú treystir.

Sorgin ber vitni um að þú elskaðir aðra manneskju. Þótt þér fari með tímanum að líða betur þýðir það ekki að þú hættir að elska manneskjuna. Kærleikann geymirðu áfram innra með þér.

Að festastí sorginni

Þótt tilfinningasveiflur og vanlíðan sem fylgja sorginni verði hjá lang flestum minni eftir því sem tíminn líður geta sumir fundið að sorgin heltekur lífið til lengri tíma, jafnvel mörgum árum eftir að ástvinurinn dó. Þegar eðlileg úrvinnsla verður ekki í sorginni eða þegar líðanin er áfram jafn slæm eftir mjög langan tíma er oft talað um „flókna sorg“ eða sorg sem ekki næst að vinna úr á eðlilegan máta. Eftirfarandi einkenni gætu þá verið til staðar en hafa ber í huga að hér er um að ræða einkenni sem enn eru til staðar eftir langan tíma, jafnvel einhver ár.

  • Nær ekki að meðtaka dauða þess látna eða tilfinningalegur doði.
  • Er stöðugt að hugsa um hinn látna eða hvernig hann dó.
  • Yfirþyrmandi sorg og tilfinningalegur sársauki þar sem biturð og reiði eru oft ráðandi.
  • Getur ekki notið þess að rifja upp góðar minningar um hinn látna.
  • Ásakar sig fyrir dauða ástvinarins.
  • Óskar þess að fá að deyja til að vera með ástvini sínum.
  • Gerir allt til að forðast það sem að minnir á missinn.
  • Ákafur söknuður eftir þeim látna.
  • Mikil einmanakennd og upplifir einangrun frá öðrum.
  • Erfiðleikar við að sinna áhugamálum eða gera plön fyrir framtíðina.
  • Finnst lífið tilgangslaust og tómt án þess látna. Finnst hluti af sér hafa dáið.

Það er enginn rétt eða röng leið þegar kemur að sorginni og það er heldur ekki hægt að marka henni einhvern ákveðinn tíma. Ef þú hins vegar finnur að tilfinningarnar halda áfram að heltaka tilveruna löngu eftir að ástvinurinn dó er mikilvægt að þú ræðir við heimilislækninn þinn eða aðra fagaðila um líðan þína til að þú getir fengið viðeigandi aðstoð og stuðning.

Þegar maki manns deyr verður allt svo hljótt og dimmt innra með manni.

Það er eins og manni hafi verið fleygt langt út á haf og maður fer á bólakaf og raddir fólks í kring um mann verða óljósar og langt í burtu, líkt og maður sé á kafi í vatni. Þegar maður kemur upp úr kafi er allt í myrkri en maður sér samt grilla í ströndina og maður veit að til að lifa af þarf maður að taka nokkur sundtök í einu og hvíla sig svo á milli og halda síðan áfram.

Þegar sundtökin eru erfið eða ætla að verða manni ofviða þá sendir Guð manni engla sem segja hlý orð eða sýna framkomu sem styrkir mann og hjálpar manni að halda áfram og ströndin verður sýnilegri og það fer smá saman að birta.

Að missa maka sinn til margra ára er erfiðara en nokkur orð fá lýst. Maður verður blindur á öðru auga, sér hlutina í öðru ljósi, upplifir hlutina öðruvísi. Lífið hefur annan tilgang, aðra sýn. En englarnir sem Guð sendir til hjálpar, bjarga manni. Sorgin kemur síðan í bylgjum, jafnvel þegar maður á síst von á því. Þá er áríðandi að halda í vonina og láta ekki sorgina ná yfirhöndinni, vona að maður komist yfir þetta.

- birt með leyfi höfundar sem vildi ekki láta nafn síns getið.

Tekið saman af Lóu Björk Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðingi (uppfært 10/5 2019).

Heimildir

Byggt á gögnum af eftirfarandi vefsíðum:

Ráð­gjöf og stuðn­ing­ur þér að kostn­að­ar­lausu

Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.