Varðveisla frjósemis hjá stúlkum
Ragnar Bjarnason rannsakar varðveislu frjósemis hjá stúlkum sem fá krabbameinsmeðferð á barns- eða unglingsaldri.
Verkefnið hefur það markmið að setja upp verklagsreglur varðandi mögulega varðveislu á frjósemi stúlkna sem þurfa að gangast undir krabbameinsmeðferð sem getur haft skaðleg áhrif á frjósemi, þ.e. valdið ófrjósemi, stytt frjósemistíma eða haft áhrif á getu til að verða barnshafandi eða ganga með barn. Hér á landi hefur fram til þessa ekki verið boðið upp öll þau inngrip sem hægt væri að horfa til þegar stúlkur gangast undir meðferð sem getur haft þessi áhrif, svo sem ekki eggheimtu né frystingu á eggjastokksvef.
Gagnsemi og framlag verkefnisins
Verkefnið snýr ekki að rannsókn á áhrifum krabbameinsmeðferðar á frjósemi kvenna en felur í sér að taka saman hvaða meðferðir geta haft þessi áhrif og hvaða úrræði gætu komið til greina hverju sinni. Í dag er vitað að krabbameinsmeðferð getur í sumum tilfellum haft skaðleg áhrif á frjósemi stúlkna og kvenna og að þessi áhrif fara m.a. eftir tegund meðferðar, alvarleika og staðsetningu krabbameinsins, sem og aldri og frjósemi fyrir meðferð.
Rannsóknin Varðveisla frjósemi hjá stúlkum sem fá krabbameinsmeðferð á barns- eða unglingsaldri hlaut 16.000.000 kr. styrk úr sérstakri stærri úthlutun Vísindasjóðs árið 2024.