Tæknin nýtt til að auka þátttöku í skimun
Ágúst Ingi Ágústsson og Linda Karlsdóttir könnuðu áhrif sms-áminninga á þátttöku í leghálsskimun.
Þegar kom að því að velja lokaverkefni hugsaði Linda Karlsdóttur, þá meistaranemi í atferlishagfræði við Stirling-háskóla í Skotlandi, heim til Íslands. Hún setti sig í samband við Ágúst Inga Ágústsson, yfirlækni hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins, og saman mótuðu þau verkefnið sem sneri að því að kanna áhrif textaskilaboða (sms) á þátttöku kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini.
„Flestar konur vita að skimun skiptir máli og vilja taka þátt, en svo eru ótal hlutir á dagskrá og það vill dragast og jafnvel gleymast að panta tíma. Í verkefninu voru textaskilaboð sem minna konur á að panta tíma í skimun send 2-5 vikum eftir að hefðbundin boðsbréf bárust.“
Verkefnið var svokölluð slembiröðuð samanburðarrannsókn (e. Randomised Controlled Trial, RCT). Hluti þeirra kvenna sem fengu hefðbundin boðsbréf fékk sms og annar hluti fékk ekki sms, til að hægt væri að bera saman þátttöku hópanna í skimun vikurnar á eftir. Það er algengt þegar verið er að innleiða nýtt vinnulag, eins og í þessu tilfelli sms-áminningu, að gerð sé rannsókn til að ekki sé verið að innleiða eitthvað sem hefur engin áhrif. En þessi sms höfðu áhrif:
„Við fundum mun milli hópa, þær konur sem fengu sms mættu marktækt betur en konur sem ekki fengu sms. Þetta bendir til þess að þessi tiltölulega einfalda og ódýra leið til áminningar hafi áhrif á heilsuhegðun kvenna um leið og hún þótti ekki óþarflega ýtin, því að sjálfsögðu tekur hver og ein kona ákvörðun fyrir sig um þátttöku í skimun.“
Verkefnið Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini á Íslandi: Geta textaskilaboð (sms) aukið þátttöku kvenna? hlaut 1,2 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2019.
Umfjöllun um rannsóknina: