Markmiðið að koma í veg fyrir meinvarpsmyndun
Guðrún Valdimarsdóttir rannsakar meinvarpsmyndun brjóstakrabbameins.
Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna á Íslandi sem og á heimsvísu. Lífshorfur hafa batnað verulega undanfarin ár en versna til muna ef meinvörp greinast.
Krabbameinsfrumur geta ferðast til nýrra líffæra, lagst í dvala, þraukað ýmsar lyfjameðferðir og svo vaknað aftur úr dvala og myndað meinvörp. Ekki er að fullu ljóst hvers vegna og hvernig þær virkjast eftir mislangan tíma í dvala, en margt bendir til þess að nærumhverfi æxlisfrumanna gegni hlutverki.
Guðrún Valdimarsdóttir dósent við Læknadeild Háskóla Íslands rannsakar íslensk brjóstakrabbameinssýni og æxlinga sem ættaðir eru úr æxlum kvenna með brjóstakrabbamein. Markmiðið er að rannsaka hvernig og hvers vegna meinvarpsmyndun brjóstakrabbameins á sér stað. Hún rannsakar líka tvær mismunandi undirgerðir brjóstakrabbameins í viðleitni til að skilja hvers vegna sjúklingar með ólíkar undirgerðir svara lyfjameðferð á ólíkan hátt.
„Þekkingin sem skapast mun vonandi hjálpa okkur í þróun á sértæku lyfjavali fyrir hvern og einn brjóstakrabbameinssjúkling til að koma í veg fyrir meinvarpsmyndun í brjóstakrabbameinssjúklingum,“segir Guðrún.
Verkefnið Æxlingar úr brjóstakrabbameinssjúklingum meðhöndlaðir með æðaþelssértækum sameindalyfjum - Samanburður á frumæxlum og meinvörpum í ólíkum undirgerðum brjóstakrabbameins hlaut 8,6 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2021, 5,4 milljónir króna árið 2022 og 6 milljónir króna árið 2023.
Framvinda (mars 2023)
Í þessu verkefni rannsökum við samskipti brjóstakrabbmeinsfruma við nærumhverfi sitt, sér í lagi æðaþelið. Tilgáta okkar er sú að samspil milli seytipróteinanna EGFL7 og TSP-1 á æðaþeli og yfirborðsviðtakanna CD36 og CD47 á krabbameinsfrumum hafi mikilvægu hlutverki að gegna í framgangi brjóstakrabbameins og geti verið ólík milli mismunandi undirgerða. Þessi ólíku samskipti gætu verið ástæðan fyrir því að sumar undirgerðir brjóstakrabbameina taka sig upp að nýju þrátt fyrir lyfjameðferð. Niðurstöður okkar gefa til kynna að tjáning á yfirborðsviðtökunum CD36 og CD47 er ólík í þeim tveimur undirgerðum brjóstakrabbameina sem hafa verið skoðaðar. Frekari tilraunir á æxlingum eru nú í framkvæmd en það eru þrívíddarræktanir á brjóstakrabbameinsfrumum sem eru upphaflega einangraðar frá sjúklingum og er hægt að nota í sniðlækningar í framtíðinni. Þessir æxlingar eru meðhöndlaðir með lyfjunum doxorubicin, RAP-041 og Parsatuzumab sem hemja bæði æxlisvöxt og æðavöxt.