Beint í efni

Ljósa­með­ferð fyr­ir heilsu og líð­an

Þórhildur Halldórsdóttir rannsakar hvort ljósameðferð geti dregið úr líffræðilegri öldrun hjá konum eftir brjóstakrabbameinsmeðferð.

Svokallaður líffræðilegur lífaldur, sem er greindur í blóðsýni, er talinn góð mæling á hvernig einstaklingurinn hefur það heilsufarslega séð. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem hefur greinst með krabbamein hefur hærri líffræðilegan lífaldur en fólk sem ekki hefur greinst með krabbamein. Nýlegar rannsóknir benda til þess að líkamlegt og andlegt álag sem fylgir krabbameinsgreiningu og meðferð, sem og meðferðin sjálf, flýti líffræðilegri öldrun.

vídjó

Ljós sem meðferð

Rannsóknir benda til þess að með því að draga úr líkamlegu og andlegu álagi sem fylgir krabbameinsgreiningu og meðferð megi mögulega koma í veg fyrir flýtta líffræðilega öldrun. Ljósameðferð, þar sem notast er við hvítt ljós, er meðal þess sem getur dregið úr algengum og alvarlegum fylgikvillum krabbameinsmeðferðar, á borð við þreytu, svefntruflanir og þunglyndi.

Fyrsta rannsókn sinnar tegundar

Þórhildur Halldórsdóttir, lektor í klínískri sálfræði og erfðafræði við Háskólann í Reykjavík, og samstarfsmenn rannsaka hvort ljósameðferð geti dregið úr hröðun á lífsöldrun kvenna með brjóstakrabbamein. Hún telur þetta vera fyrstu rannsókn sinnar tegundar sem skoðar ekki bara líffræðilegan lífaldur á einum tímapunkti en líffræðilegur lífaldur verður metinn áður en krabbameinsmeðferð hefst, strax eftir lyfja- og ljósameðferðina og svo sex mánuðum eftir að meðferð lýkur.

Ljósameðferð gagnleg og hagkvæm

Ef sannreynt er að ljósameðferð dragi úr hröðun líffræðilegrar öldrunar gæti það haft verulegan heilsufarslegan ábata og minnkað áhættuna á að sjúklingar þrói með sér langvinna sjúkdóma og skertan lífaldur. Ljósameðferð er ódýr og krefst ekki mikils af sjúklingunum og því hagkvæmt meðferðarúrræði til að stuðla að góðri líkamlegri og andlegri heilsu fólks eftir krabbameinsmeðferð.

Verkefnið Seinkun aldursklukkunnar: Dregur ljósameðferð úr flýttri líffræðilegri öldrun hjá konum eftir brjóstakrabbameinsmeðferð? hlaut 9,3 milljóna króna styrk úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2020 og 5.554.080 króna styrk árið 2022.

Styrkurinn verður aðallega nýttur til að greiða fyrir greiningarnar á líffræðilegri öldrun úr blóðsýnum.