Frjósemisverndandi lyf myndu draga úr álagi og inngripum
Bríet Bjarkadóttir, doktorsnemi í Oxford, vinnur að rannsókn sem gæti lagt grunn að þróun frjósemisverndandi lyfja sem hægt væri að gefa stúlkum og konum samhliða krabbameinslyfjameðferð.
Bríet Bjarkadóttir, doktorsnemi undir handleiðslu Suzannah A. Williams við Háskólann í Oxford, hlaut 2,5 milljóna króna styrk árið 2019 fyrir verkefnið Í átt að frjósemisverndun án inngrips fyrir kvenkyns krabbameinssjúklinga: áhrif krabbameinslyfja á eggbú og þróun frjósemisverndandi lyfja.
Krabbameinsmeðferðir geta skert frjósemi stúlkna og kvenna með því að eyða eggbúum eggjastokkana. Markmið verkefnisins er að þróa nýja greiningaraðferð til að rannsaka skaðleg áhrif krabbameinslyfja á eggbú. Á grundvelli þeirra niðurstaðna verður leitað að frjósemisverndandi efnum og kannað hvort þau geti komið í veg fyrir skemmdir á eggbúum.
„Aukinn skilningur á áhrifum krabbameinslyfja og þróun frjósemisverndandi lyfja myndi auka verulega lífsgæði stúlkna og kvenna í kjölfar krabbameinsmeðferðar.“